4. nóvember 2009

Frá vasakuta til vélrúnings

Þessa dagana er urmull fjár rúinn. Hundruð tonna af hágæðahráefni falla til. Ullarplögg seljast í stórum stíl. Alþýða fólks jafnt sem hinir fram- og ljóssæknu klæðast þeim. Hönnuðir finna sífellt nýjar lausnir.

 

Nú mala vélklippur fjárhúsanna í nóvember þar sem áður voru brýndir kutar á sólmánuði eftir að skjarrar kindur höfðu verið sóttar út í haga. Margt hefur breyst.

 

Á dögunum var nefndur pappakassi undan Bónusfrönskum hálfur með bæklingum. Nú er heimsíðungur kominn að þeim stað í kassanum þar er lá bæklingurinn sem hér er myndaður.

 

Heimsíðungur er ekki vel að sér um verksögu rúnings á liðnum árum. Lengi brúkuðu með aðeins kuta sinn. Svo komu klippur. Má vera að þær hafi verið eitt af því nýja sem Torfi, síðar kenndur við Ólafsdal, nam með sér heim frá Skotlandi kringum 1867. Í minnisbók sinni víkur hann að því.

 

Upp úr 1960 var farið að fræða um vélrúning sauðfjár. Meðal annars voru haldin námskeið þar um á bænum sem Bónusfranskrakassinn áðurnefndi kom frá. Ungbændur á sjötugsaldri minnast enn í dag með hlýju slíkra námskeiða er haldin voru víða um land, því þau léttu þeim erfitt verk.

 

En það var líka kennt að rýja með handklippum, sbr. myndina hér til hliðar, sem tekin var á slíku námskeiði á Hvanneyri skömmu eftir 1960  - að því er talið er.

 

Landbúnaðarsafn á sundurlaus föng til rúningssögu síðustu aldar. Nokkuð er einnig til í Sauðfjársetrinu á Ströndum.

 

Ósköp væri nú gagnlegt ef fleiri hirðuheimili mundu geta útvegað safninu muni og minjar sem tengjast rúningssögunni síðustu áratugina.

 

Við bíðum róleg og látum íslensku ullina á meðan bægja frá okkur haustnepju og vetrarkuldum.

 

Næstu mánuðina munu vaxa meira en hálft þúsund tonn af ull af góðgresi liðins sumars og annarri virkt. Stýrivextirnir þar munu ráðast af natni heimahirðis en hafa fátt að gera með ákvarðanir AGS.

 

Við höfum yfir ýmsu að gleðjast.