7. nóvember 2009

Mr. Harry mættur í safnið

Við lok fimmta forntraktoranámskeiðsins í dag afhenti Sigurður Skarphéðinsson Landbúnaðarsafni Íslands stækkaða ljósmynd af hugvitsmanninum Harry Ferguson.

Harry Ferguson er sá hönnuður dráttarvéla sem mest áhrif hefur haft á gerð dráttarvéla í heiminum, og þá um leið verktækniþróun á þeim sviðum þar sem slíkar vélar koma við sögu.

 

Engin ein tegund dráttarvéla hefur orðið vinsælli hérlendis en einmitt Ferguson og arftakar hans. Er því vel við hæfi að minnt sé á höfuðsmiðinn með mynd af honum í landbúnðarsafni þjóðarinnar.

 

Sigurður Skarphéðinsson hefur um 45 ára skeið þjónað íslenskum eigendum Ferguson-dráttarvéla með margvíslegum hætti og er enn að. Hann hefur kennt á öllum forntraktora-námskeiðunum á Hvanneyri. Hefur yfirburðaþekking hans á Ferguson-dráttarvélum komið þátttakendum vel.

 

Landbúnaðarsafn Íslands færir Sigurði bestu þakkir fyrir góða gjöf.