8. nóvember 2009

Úrbót vegna kvörtunar

Um daginn var eins konar getraun hér á síðunni um verkfæri sem stutt lýsing var gefin af. Verkfærið var helgríma. Nú hafa heimsíðungi borist beiðnir um að skýra betur það sem þarna var sagt. Við skal orðið og fara skýringar hvers liðar lýsingarinnar hér á eftir:

 

Það kom í safnið að norðan. Gripurinn kom úr Skagafirði; hvort algengari var þar en annars staðar veit heimsíðungur ekki.

 

Mest notað að hausti.  Helgríma var notuð til aflífunar fjár á sláturtíð.

 

Á því sannaðist að eins dauði er annars brauð.  Liggur í augum uppi; féð gaf fólki líf með dauða sínum. 

 

Áður iðaði hluti þess í skinninu.  Leður var í þeim hluta helgrímunnar sem spenntur var yfir snoppu gripsins  - leður fengið af spendýri.

 

Annar leyndist nær iðrum jarðar og lenti síðan í miklum hita.  Kólfurinn var úr málmi. Sá málmur var grafinn úr jörðu og unninn við mikinn hita.

 

Þriðji olli stundum skrjáfi í skógi; svo hljóðlátt var ekki er honum var beitt.  Hamarinn sem kólfinn rak var úr viði sem eitt sinn var lifandi og laufgað/barrað tré í skógi.

 

Nafn verkfærisins er stundum tengt nafni skáldsins Einars Benediktssonar.  Þekkt er helgríma sú er Rikarður Jónsson gerði af ásjónu Einars skömmu eftir dauða hans, sjá m.a. www3.hi.is/stjorn/sam/fbrefhi/1999/juni/helgrimur.html