12. nóvember 2009

Beðasléttur í borgarlandinu

Á vegum Landbúnaðarsafns hefur verið unnið að dálitilli rannsókn á eldri jarðræktarháttum, ekki síst beðasléttugerð sem er einn angi þaksléttunar og á sér líklega eldfornar og erlendar rætur.

 

Minjar um beðasléttur má finna víða um land eins og þegar hefur verið vikið að hér á síðunni.

 

Að þessu sinni birtum við mynd sem tekin var í gær (11.11.2009) á túni Laugarnessbæjarins við Reykjavík. Horft er til SV.

 

Þarna í Laugarnesinu eru minjar sem friðaðar eru sem borgarminjar, enda á Laugarnes sér afar merkilega sögu ef í hana er farið.

 

Beð sléttunnar eru bæði mörg og löng, flest um það bil 4,5 m á breidd. Sé bent á myndina stækkar hún og þá sést hve beðin eru regluleg og enn skýr þótt eflaust séu orðin aldargömu.

 

Það er gaman að sjá þessar minjar kúra þarna í sinni ró við hliðina á asfaltstrætinu sem aldrei sefur, blokkunum í Laugarnesshverfinu og turnbyggingunum við ströndina sem sannarlega eru á góðri leið með að gefa Reykjavík amerískt borgarútlit.

 

Vonandi fá beðaslétturnar og aðrar minjar um velmektarár Laugarness að kúra áfram í ró og færa þeim, sem þarna vilja rölta um svæðið, fróðleik fyrir andann og frið í sálina  þótt skammt sé til skarkala heimsins.