20. nóvember 2009

Frá veri véla til fóðurblöndunar og áburðar

Glöggir lesendur þessarar síðu hafa ugglaust tekið eftir því að á hægri brún hennar er komið nýtt merki fyrirtækis.

 

Um tveggja ára skeið stóð þar merki Vélavers hf sem stutt hafði Landbúnaðarsafn með ýmsum hætti, m.a. við lagfæringu fyrsta Zetorsins er til Íslands kom og hvílir nú hjól sín og hlífar í safninu. Frá því var sagt í fyrrasumar.

 

Nú hafa kaup gerst þannig á eyrinni að fyrirtækið Vélaver er horfið af heimi á því formi sem var. Við tregum það og þökkum fyrirtækinu og forverum þess góða samfylgd og trygga þjónustu við landbúnaðinn um langar tíðir.

 

Landbúnaðarsafn hefur nú boðið Fóðurblöndunni hf sæti á þessum viðhafnarstað heimasíðunnar. Fyrirtækið hefur þegið sætið.

 

Fóðurblandan er mikilvægur þjónn bændum og búaliði hvort sem býr við spendýr, jarðarávöxt ellegar sporðfénað.

 

Á heimasíðu fyrirtækisins stendur m.a. þetta um hlutverk hennar - og þá starf fyrirtækisins:

 

Megintilgangur með nýjum vef er að styðja við þjónustu Fóðurblöndunnar og Áburðarverksmiðjunnar gagnvart viðskiptavinum fyrirtækisins. Vefurinn kemur til með að veita viðskiptavinum upplýsingar um starfsemi félagsins, ítarlegar upplýsingar um vörur, pantanir og þjónustu, auk þess að miðla fræðandi efni um fóður, jarðrækt, áburðarfræði og annað sem tengist starfsemi fyrirtækisins. 

 

 

Eins og fram hefur komið nýlega á heimasíðum Landbúnaðarsafns og Fóðurblöndunnar afhentu þeir fóðurblöndungar safninu nýverið gagnlega gripi er minna á sögu innlendrar framleiðslu nituráburðar.

 

Fleira eiga þessir aðilar eftir að vinna saman á næstunni ef að líkum lætur.