28. nóvember 2009

Aðventugetraun um Ómagaskúr

Hluti búmenningar okkar liggur í því hvernig geymd eru tæki og vélar. Bændum hefur stundum verið legið á hálsi fyrir illa meðferð véla – að þær liggi í hirðuleysi út um grundir og völlu.

 

Þótt enginn mæli slíku bót er þetta hluti af þjóðháttum okkar og búnaðarsögu.

 

Nú þegar vetur sest að og veður harðna er upplagt að rifja upp nokkur atriði úr stórri sögu íslenskrar vélageymslu.

 

 

Fyrst tvö atriði úr bókinni ... og svo kom Ferguson.

 

Eftirfarandi er þar haft eftir góðbóndanum Sigurði Þórðarsyni á Laugabóli við Djúp árið 1950 (bls. 63):

 

... en það ætti ekki að selja nokkrum manni í sveit eða kaupstað vjel nema gegn skírteini óvjefengjanlegu um það, að hennar bíði gott hús til vetrargeymslu, eða í vondum veðrum heima hjá kaupandanum og það mætti gjarnan varða dagsektum að misbjóða dýrum vjelum með illri hirðingu eða því að ofurselja eyðingu ísa og illviðra undir berum himni að vetrarlagi, þá er bæði gjaldeyri þjóðarinnar og heiðri manna stórlega misboðið, þegar svo er búið...

 

Og í sömu bók (bls. 152) sagði Bergur Torfason á Felli við Dýrafjörð frá geymslu fyrstu Ferguson-vélarinnar, er þangað kom, þannig:

 

... Ekkert hús var til fyrir vélina en fyrstu árin var búinn til skáli fyrir hana úr símastaurum og öðru nýtilegu og m.a. klæddir með áburðarpokum undan kalí og þrífosfati. Þetta voru 100 kg. pokar úr þykkum striga og fóðraðir með sterku bréfi sem límt var innan á þá með einhvers konar biki. Skála þennan, sem var rétt fyrir vélina, varð svo að rífa á vorin, því hann var settur upp við baggagat á hlöðunni. Þakið var tekið af í heilu lagi og hver veggur fyrir sig.

 

Og svo minntist heimsíðungur örlaga nágranna-Zetors í dálítilli hyllingu til þeirrar góðu vélar 6tugrar á Íslandi sumarið 2008 og sagði m.a.:

 

.. Mér kemur t.d. í hug Zetorinn, nágranni minn, fyrir vestan. Hann mun víst hafa komið að sunnan með Esjunni í kringum 1970. Gekk strax í öll verk og skilaði þeim prýðilega. Fyrsta haustið lenti hýsing hans í útideyfu, enda Zetor viljugur til allra verka, hvernig sem viðraði. Þegar vetur lagðist að var allt komið á hús; hænsnin, krakkarnir, heyið, féð og kýrnar – nema Zetor. Hann gleymdist inni á gamla bæjarhólnum, þar sem hann stóð af sér drephríðir hins fyrsta vetrar. Þær máðu þó lakk hans fljótlega, sem að sönnu var hvorki þykkt né sterkt. Glaður hélt Zetor þó til verka vorið eftir og sinnti störfum samviskusamlega allt sumarið...

 

 

Hún var á annan veg sagan sem kirkjukórsfélaginn úr Ólafsvík sagði heimsíðungi í nýlegri heimsókn í Landbúnaðarsafnið:

 

Þetta var á fimmta áratugnum. Á nágrannabæ hafði verið keyptur traktor af gerðinni W4 en þeir þóttu þá mikil nývirki. Þessum traktor fylgdu gúmmíhjól. Þau voru líka mikil nýlunda því á þessum árum gengu flestir traktorar á járngaddahjólum. Þvílík var snyrtimennskan og alúðin á bænum að þegar traktorinn var ekki í notkun voru hærur lagðar yfir dekkin svo sterkt sumarsólskinið næði ekki að spilla fokdýrum gúmmíunum...

 

Hver veit nema þarna á bænum hafi einhver tekið eftir því að gúmmískór og –stígvél létu ásjá ef lágu lengi úti undir beru lofti. Fá eyðingaröfl eru áhrifameiri en einmitt sólin með sterkum geislum sínum.

 

Þættinum lýkur svo með sögu af skúr einum sem bóndi á vestanverðu Suðurlandi byggði yfir nýfengna dráttarvél sína. Slík snyrtimennska er svo sem ekki í frásögur færandi þar um slóðir ef ekki hefði komið til hið sérstæða nafn sem nágrannar munu hafa gefið mannvirkinu. Þeir kölluðu hann Ómagaskúr. Skýring nafnsins lá í nafni dráttarvélartegundarinnar.

 

Því verður þetta aðventu-getraun heimasíðu Landbúnaðarsafnsins:

 

Yfir hvaða dráttarvélartegund var skúrinn byggður?