30. nóvember 2009

Heimasíða safnsins 10 ára!

Á morgun er merkisdagurinn 1. desember – ekki aðeins vegna fengins fullveldis Íslands fyrir 91 ári. Það var nefnilega þann dag – 1. desember 1999 – sem heimasíða safnsins leit dagsins ljós.

 

Tölvumeistarinn Bjarki Már Karlsson (Andakíll ehf) gerði fyrsta snið síðunnar og annaðist hana fyrstu misserin af hagleik sínum.

 

Flest síðari árin hafa Nepal-menn í Borgarnesi annast vistun og viðhald síðunnar svo og endurgerð þegar þess hefur þurft. Nepal-mönnum eru færðar kærar þakkir fyrir trausta og sérlega lipra þjónustu. Þar er starfsfólk sem kann sitt fag.

 

Öll árin hefur Þórunn Edda Bjarnadóttir svo verið ráðgefandi um gerð síðunnar og bjargað heimsíðungi úr tilfallandi hvunndags-tölvuvandræðum. Þessu heiðursfólki er nú þökkuð liðveislan.

 

Hlutverk síðunnar hefur allar vikur þessara tíu ára verið að vekja athygli á starfi Landbúnaðarsafns Íslands/Búvélasafnsins á Hvanneyri sem og að minna á ýmislegt sem varðar búnaðar- og þá einkum bútæknisögu síðustu aldar. Þetta hefur verið gert til þess að efla áhuga á einu mesta breytingaskeiði sem landbúnaðurinn hefur lifað.

 

Ekki hefur verið gerð tilraun til þess að telja þá pistla sem birst hafa á síðunni. Þeir eru allnokkrir og flestir enn aðgengilegir lesendum á síðunni.

 

Vitanlega hefur léttmeti flotið með enda óhollt að innbyrða eingöngu þunga fæðu – það verður líka leiðigjarnt til lengdar og getur reynt úr hófi á meltingarfæri. Má enda vísa einnig til grúkksins (kjarnyrkjunnar) hans Piets Heins: „Den som kun tar spøg for spøg og alvor kun alvorligt. Han og hun har faktisk fattet begge dele dårligt“...

 

Heimsíðungur er þakklátur þeim sem nennt hafa að fylgjast með síðunni og umborið hana. Hann hefur svo sem ekki grænan grun um hverjir þeir eru; hefur þó sannast sagna rekist á lesendur síðunnar við ýmis tækifæri: í kaupfélaginu, í begravelsum, heimateitum og stórafmælum, á jólahlaðborðum, bensínstöðvum, í símanum og á rafpóstinum svo fátt eitt sé nefnt.

 

Viðbrögð lesenda eru nú þökkuð – þau hafa mörg orðið til þess að bæta síðuna, sum hafa orðið til þess að bjarga búnaðarsöguþáttum frá glötun en fáein hafa bara aukið mont heimsíðungs.

 

Vissulega hafa viðtökur verið uppörvandi. Því er heimsíðungur ráðinn í því að nudda áfram enn um stund eftir sömu uppskrift.

 

En það heyrir til að bjóða til veislu á afmælum. Því býður heimsíðungur öllum lesendum síðunnar í meðfylgjandi sýndartertusúkkulaðitertu með kanli.

 

Samkvæmt excel-hagreikningum heimsíðungs á tertan að duga fyrir hóp sem svarar til samanlagðs fjölda allra sauðfjár-, hrossa- og kúabænda á Íslandi. Njótið vel.

 

Bjarni Guðmundsson

Hvanneyri

 

ES: Uppskriftina að þessari tertu tók heimsíðungur ófrjálsri hendi úr virtu dagblaði utan úr Hádegismóum við Rauðavatn. Í sýndartertuna fóru 125 kg af sunnlensku Samsölusmjöri, 100 kg af Síríus-súkkulaði frá Nóa, 3000 egg frá Nesbúinu, 125 kg Samkaupa-sykur, 75 kg hveiti frá Ólafi góðbónda á Þorvaldseyri, 3000 teskeiðar af kanli sem fátæk en skuldlaus og sálarglöð smábændahjón á Sri Lanka ræktuðu – hér úr búð sem nú er í umönnun Arionbanka og 500 teskeiðar af bandarísku gerpúlveri úr sömu krambúð. Þessu öllu blandað saman og bakað síðan við hæfilegan hita í hæfilegan tíma. 

 

Kremið (en á því hefur heimsíðungur hvað mestan áhugann) er gjört úr 100 kg af súkkulaði-„dropum“ að frjálsu vali, 75 kg af KS-snemmbærusmjöri úr Skagafirði og 50 kg af dönskum flórsykri úr Einarsbúð á Akranesi. Þessu öllu blandað saman bræddu eftir hætti. Síðan hrært lengi, lengi. Eftir kælingu er því sem þá kann að vera eftir af kreminu smurt yfir tertuna. Hún er skreytt með rifsberjum frá Flúðum, aðalbláberjum úr Dýrafirði og haganlega skornum fjallaþin úr Skorradal ...