4. desember 2009

Sverris Markússonar dýralæknis minnst

Sverrir Markússon dýralæknir er horfinn af heimi. Landbúnaðarsafn á Sverri það að þakka að fyrir sex árum afhenti hann safninu dýralækningaáhöld sín. Sverrir var í hópi fyrstu héraðsdýralækna landsins og starfaði öll sín ár á þeim hluta landsins sem nú heitir NV-kjördæmi.

 

 

 

 

 

Meðfylgjandi mynd var tekin þegar Sverrir (t.v.) afhenti lækningasafn sitt síðsmars árið 2003.

 

Farsæll ævi- og starfsferill Sverris Markússonar verður ekki rakinn hér. Hins vegar skal það nefnt að Sverrir lét sér líka annt um búnaðarsögu og safnið á Hvanneyri. Var t.d. gestur þar við ýmis tækifæri.

 

Hann var sonarsonur hjónanna Torfa Bjarnasonar og Guðlaugar Zakaríasdóttur í Ólafsdal og þar var hann fæddur. Sverrir lét sér annt um Ólafsdal og minningu skólastjórahjónanna og hann beitti sér fyrir varðveislu hennar.

 

Sverrir naut þess að sjá veg Ólafsdals vaxa að nýju en þar er nú hafið endurreisnarstarf sem lofar góðu.

 

Landbúnaðarsafn minnist Sverris dýralæknis Markússonar með virðingu og miklu þakklæti. Í fyllingu tímans mun þar verða hægt að leiða gesti í safnhluta um dýralækningar á Íslandi þar sem grunnurinn verður hin ágæta gjöf hans. 

 

Lækningatæki í höndum natinna kunnáttumanna hafa átt mikinn þátt í framförum búfjárræktarinnar og aukið velferð og vellíðan húsdýranna.

 

Störf Sverris Markússonar eru þökkuð og aðstandendum hans færðar samúðarkveðjur.