21. desember 2009

Jóla- og nýárskveðjur frá safninu

Komið er að jóla- og nýárskveðjum frá Landbúnaðarsafninu. Árin líða sem við hviss ljás hins ötula heyskaparmanns. Strámörg knippast þau saman í snyrtilegan múga eilífðarinnar.

 

Þótt múginn óendanlegi virðist allur eins eru það þó stráin mörgu sem mismuninn geyma. Strá hinna óteljanlegu atvika sem engin eru eins: sum geyma sigra og sóknir, önnur það sem miður tókst.

 

Úr öllum þeirra verður þó soginn safinn sem lífsþróttinn gefur og löngunina til þess að halda á, því óslægjan framundan bíður þar sem hún bylgjast í sólvermdri golunni þrútin fjörva. Ljárinn bítur og sker hreint því hvorki skortir sláttubónda lag né elju. Missir aldrei fars.

 

Við biðjum þess og treystum raunar því að töðufallið verði nóg um leið og við þökkum það sem þegar er komið í múgann langa.

 

Landbúnaðarsafn Íslands færir ykkur hátíðakveðjur.