7. janúar 2010

Aðdáendaklúbbur Zetor 25

Á dögunum barst Landbúnaðarsafni bréf frá honum Martin Krajewski. Hann er Tékki og er forseti hins tékkneska aðdáendaklúbbs Zetor 25.

 

Klúbburinn hefur hug á að komast í samband við áhugasama Zetor-menn vítt um veröld í því skyni að skiptast á fróðleik og skemmtan er varðað gæti þessa merkilegu dráttarvél. Klúbburinn hefur heimasíðuna http://www.zetorek25a.webnode.cz

 

 

Það er að sönnu ekki auðvelt Íslendingi að lesa texta heimasíðunnar en með viljann að vopni má komast nokkuð á veg. Marteinn forseti hefur tölvupóstinn http://www.zetor25.cz og ritar sjálfur hina ágætustu ensku.

 

Landbúnaðarsafni Íslands var færður fyrsti Zetorinn sem til Íslands kom. Hann hefur verið pússaður upp; hann er árgerðin 1948. Við sögðum frá honum í fyrra, les http://www.landbunadarsafn.is/frettir/nr/77249/

 

Heimsíðungur gleðst yfir framtaki Marteins Krajewski og hefur þegar tekið jákvætt í erindi hans um að miðla tengslum til íslenskra Zetor-aðdáenda. Heimsíðungur hefur rökstuddan grun um að sá hópur sé allnokkur að stærð. Zetor hefur hins vegar búið við það ástand, rétt eins og Möwe-reiðhjólin, að þykja ekki fínt merki.

 

Rétt er þó að spyrja að leikslokum. Þjóðarskömm væri að meta ekki mikið og óeigingjarnt framlag Zetors til íslensks landbúnaðar. Að því vék heimsíðungur raunar í hátíðarræðu sinni í Landbúnaðarsafni Íslands fyrir 17 mánuðum síðan er afhjúpaður var téður Zetor safnsins. Er megin efni hennar finnanlegt á fréttasíðunni  http://www.landbunadarsafn.is/frettir/nr/77249/ .

 

Þakklátir Zetor-aðdáendur hafa með mjög hógværum hætti látið í ljósi væntumþykju sína um þetta framtak safnsins. Heimsíðungi er það því sérstök ánægja og eiginlega heiður að fá að miðla þessum tengslum til tékkneskra Zetor-aðdáenda og í gegnum þá til  slíkra um hinn gjörvalla Zetor-heim.

 

Zetor-25 er nefnilega hinn sami hvort heldur er í Súdan eða Grímsnesinu svo tekin sé traustataki lína skálds sem bernskur bjó í uppsveitum Árnessýslu.