16. janúar 2010

Bókmennt um ónefnda dráttarvél

Heimsíðungur gerir ráð fyrir að stöku lesendur síðunnar séu eiginlega búnir að sjá þar nóg um Ferguson-bók þá er kom út á síðasta ári. Hann getur þó ekki á sér setið að birta hér skrif Ingveldar Geirsdóttur blaðamanns á hinu virta dagblaði, Morgunblaðinu, um téða bók. Fyrir skrifin er hann að sönnu þakklátur.

 

Mestu varðar þó ef tekist hefur að vekja athygli á  merkri breytingasögu landbúnaðarins um miðbik síðustu aldar - og því hvað bændur og búalið gerði til þess að laga íslenskt samfélag að nýjum aðstæðum - hinum svokallaða nútíma.

 

Það verður hins vegar að árétta það að upplag bókarinnar ... og svo kom Ferguson er þrotið. Örfá eintök eru þó enn til sölu hjá Landbúnaðarsafninu á Hvanneyri (s. 894 6368, bjarnig@lbhi.is ).

 

Hins vegar er nú kannað hvort grundvöllur sé fyrir nýrri prentun bókarinnar til þess að mæta eftirspurn. Útgefandi (www.uppheimar.is ) mun greina frá niðurstöðu sinni bráðlega.