4. febrúar 2010

Flæðiengjalönd í Borgarfirði - björgum sögunni!

Flæðiengjalöndin við Borgarfjörð voru til skamms tíma mikilvægur hluti búrekstrar margra jarða, ekki aðeins þeirra, sem þau lönd áttu heldur einnig annarra sem þar áttu ítök eða leigðu þar slægjur. Undanfarna öld hafa miklar breytingar orðið á nýtingu engjalandanna, svo sem alkunna er.

Þeim fækkar óðum sem muna af eigin reynslu hvernig engjalöndin voru nýtt og notuð, verkhætti, venjur og fleira sem snerti engjabúskapinn, sem og það hvernig nýtingin breyttist með tilkomu nýrra véla og verkfæra.  

  

Nú er að hefjast vinna við söfnun, skráningu og greiningu fróðleiks og vitneskju um nýtingu flæðiengjalandanna við Borgarfjörð til fóðuröflunar í héraðinu, með það fyrir augum að sagan verði varðveitt og gerð lifandi ljós og aðgengileg komandi kynslóðum.

 

Landbúnaðarsafn Íslands gengst fyrir verkefninu með samstarfi við Laxveiði- og sögusafnið í Ferjukoti. Ragnhildur Helga Jónsdóttir land- og umhverfisfræðingur í Ausu er verkefnisstjóri.

 

Verkefnið heitir: Flæðiengjalönd í Borgarfirði - nýtingarhættir og nýtingarsaga

 

Byrjað verður smátt en vonir standa til að síðan megi auka starfið. Á liðnu ári fékkst nokkur styrkur til verkefnisins frá Menningarsjóði Borgarbyggðar, en verkefnið tengist einnig viðfangsefni sem Landbúnaðarsafn Íslands fékk stuðning til frá Sparisjóði Mýrasýslu og Menningarráði Vesturlands.

 

Í fyrstu verður einkum lagt kapp á að komast í samband við heimildarmenn og afla munnlegra heimilda frá þeim er þekkja af eigin raun til nýtingar flæðiengja við Borgarfjörð og vinnu við hana. Meðal annars er leitað ljósmynda og annarra minja er tengjast viðfangsefninu.

 

Vonast er til að verkefnið geti lagt grunn að efni til fræðslu fyrir heimafólk og gesti héraðsins um nýtingu engjalandanna, til dæmis með sýningu í áðurnefndum söfnum eða útgáfu prentaðs fræðsluefnis og aðgengilegs á Netinu.

 

Allir sem hafa tekið þátt í og þekkja til nýtingar borgfirskra flæðiengja eru hvattir til þess að hafa samband við Ragnhildi Helgu, síma 898 0044 eða með tölvupósti ragnhildur@environice.is

 

Einnig má hafa samband við Bjarna Guðmundsson á Hvanneyri og Þorkel Fjeldsted i Ferjukoti. Það er von þeirra sem að verkefninu standa, að sem flestir, sem til þekkja, leggist á sveif til varðveislu þessa hluta menningararfs héraðsins.