11. mars 2010

Að slá með hestum - týndir þjóðhættir?

Það þótti mikill munaður á sínum tíma að fá sláttuvél fyrir hesta. Þær komu í kjölfar vaxandi túnræktar þegar fengin voru tún er hentuðu til vélsláttar.

 

Að slá með hestasláttuvél var verk sem krafðist kunnáttu og leikni og ekki síst þjálfaðra hesta. Þeim mönnum fækkar óðum sem þekktu til þessa verks.

 

Innflutningur hestasláttuvéla hófst ekki að ráði fyrr en um miðjan þriðja áratug síðustu aldar. Á árabilinu 1925-1935 voru seldar 2210 hestasláttuvélar, og af nokkrum tegundum. Ætla má að margar þeirra hafi verið í notkun fram á sjötta áratug aldarinnar, en varla margar eftir að kom fram yfir 1960.

 

Sumum hestasláttuvélanna var þó lagt eftir takmarkaða notkun því vélknúnar sláttuvélar tóku að ryðja sér til rúms þegar árið 1945. Tímabil hestasláttuvélanna varð því ekki langt hérlendis.

 

Komið hefur í ljós að lítið er vitað um vélslátt með hestum, það er að segja verkið sjálft:

 

Hvernig var tamningu dráttarhestanna háttað,

hvernig var þeim beitt með hliðsjón af vali saman í par,

hvíldum, fóðrun?

 

Ennfremur hvernig sláttuvélinni var beitt með hliðsjón af graslagi, landhalla og spillustærð?

 

Í hverju fólst einkum hirða vélarinnar?

 

Á hvaða tíma dags var helst slegið?

 

......................?

 

Margt fleira mætti telja.

 

Landbúnaðarsafn vill gjarnan komast í samband við karla og konur sem enn muna þetta búverk og væru til í það að miðla safninu af fróðleik sínum, hvort heldur væri með eigin skrifum eða spjalli við skrásetjara.

 

Best væri að fá vel kunnandi sláttumann til þess að rifja upp sjálft verkið með hestum, sláttuvél og öllu tilheyrandi. Þannig mætti halda verkkunnáttunni lifandi.

 

Eldra fólk liggur kannski ekki á netinu daginn langan, auk þess sem margir eru það hógværir að þeim finnst sjálfum að þeir hafi með lítið að fara.

 

Því væru ábendingar yngra fólks um álitlega heimildarmenn úr hópi hestasláttuvélamanna einnig vel þegnar.