30. apríl 2010 13:52

Árni G. Eylands

Árni G. Eylands var Skagfirðingur, fæddur að Þúfum í Óslandshlíð 8. maí 1895. Hann varð búfræðingur frá Hólaskóla en nam síðan búfræði í Noregi og Þýskalandi; kynntist þar ýmsum nýmælum í búskap svo sem vélum og verkfærum.

Árið1921 réðist hann til starfa hjá Búnaðarfélagi Íslands, m.a. sem þúfnabanastjóri. Síðar varð Árni verkfæraráðunautur Búnaðarfélagsins, framkvæmdastjóri búnaðardeildar SÍS, Áburðarsölu ríkisins og Grænmetisverslunar ríkisins. Þá var hann í forystu Verkfæranefndar og Vélasjóðs þar sem í hlut hans kom það að vinna að innflutningi búvéla og verkfæra, svo og prófun þeirra. Hann leiðbeindi einnig um notkun búvéla og tækni, Má segja að Árni hafi hafi komið að flestu því er varðaði þá miklu verktæknibyltingu landbúnaðarins er hófst á þriðja áratug 20. aldar. Síðar varð Árni fulltrúi í Atvinnumálaráðuneytinu og sendiráðsfulltrúi í Osló. Hann lét mörg þjóðmál til sín taka, skrifaði mikið í blöð og tímarit, og gaf að auki út þrjár ljóðabækur. Ritstjóri Freys var hann um tíma.  Árni skrifaði bókina Búvélar og ræktun, sem út kom árið 1950. Bókin er mikið og einstakt heimildarrit um tæknivæðingu íslensks landbúnaðar á fyrri helmingi 20. aldar, auk þess að vera kennslubók síns tíma í mótor- og búvélafræðum. Árni lét sig norræna samvinnu mjög varða, ekki síst tengslin við Noreg, sem og samskipti við Vestur-Íslendinga. Hann hlaut margar viðurkenningar fyrir störf sín. Árni G. Eylands lést 26. júlí 1980.