1. júlí 2010 11:05

Jón í Vorsabæ

 

Nýlátinn er Jón Eiríksson bóndi í Vorsabæ á Skeiðum. Hann var þjóðþekktur fyrir störf sín. Hér skal aðeins nefnt það sem hann vann að varðveislu menningarsögu sveitanna með margvíslegum hætti: ritun en líka ljósmyndun. Eftir hann liggur t.d. mikið safn ljósmynda sem varpa ákaflega björtu ljósi á aðstæður, vinnubrögð og verkhætti í sunnlenskum sveitum um og eftir miðja síðustu öld. Þær myndir segja mikla sögu.

Landbúnaðarsafni lagði Jón Eiríksson gott lið. Haustdag einn fyrir þremur árum fórum við söfnungar að Vorsabæ til þess að sækja gripi er Jón vildi afhenda safninu. Tveir þeirra voru frá dögum hestatímans og Skeiðaáveitunnar; tveir frá þeim dögum þegar vélaraflið kom til sögunnar en aðrir frá þeim tíma þegar garðyrkja tók að vaxa sem búgrein en á því sviði varð Jón með fyrstu bændum til þess að stunda kartöflu- og rófnarækt sem helstu búgrein. Og það er ekki langt síðan Jón sendi safninu tvo spírunarkassa fyrir kartöflur. Þótt tveir trékassar láti svo sem lítið yfir sér geyma þeir hluta af merkilegri ræktunarsögu og hana kunni Jón sem einn af forgöngumönnunum. Með gripunum öllum lét Jón fylgja glöggar lýsingar á sögu þeirra og notkun. Myndi af Jóni, sem fylgir þessum pistli, var tekin fyrir rúmu ári síðan er hann hélt erindi á Kanínudegi á Hvanneyri og sagði sögu þeirrar búgreinar, en í  forystu hennar var Jón um skeið.

Allt er þetta nú geymt og vitnar um starfsdrjúga ævi bónda sem lifði tímana tvenna en gerði sér ljóst að sögu þeirra væri vert að hafa meðferðis inn í framtíðina. Við minnumst Jóns í Vorsabæ með virðingu og þakklæti.