23. september 2010 20:21

Jóhannes frá Giljum

 

Maður þessa dags er Jóhannes Gestsson frá Giljum í Hálsasveit. Jóhannes hefur verið drjúgur við að færa safninu gripi. Í hópi þeirra eru nokkrir sem einstæðir mega teljast, m.a. heimasmíðuð verkfæri. Þá hefur Jóhannes  einnig fært safninu búnaðarskjöl og -rit sem hann og fólk hans hefur haldið snyrtilega til haga. Loks hefur Jóhannes skráð nokkra þætti um komu fyrstu vélanna að Giljum og fært þá safninu. Jóhannes hefur jafnan mætt á samkomur safnsins og látið sér annt um veg þess með mörgum hætti.

 

Jóhannes tók ásamt bróður sínum Margeiri, sem látinn er fyrir nokkrum árum,  við búi þar á Giljum af Gesti Jóhannessyni föður þeirra er þar bjó myndarbúi. Gestur mun hafa verið áhugasamur um búnaðarbætur. Meðal annars tók hann vélar snemma í þjónustu sína. Hann varð m.a. meðal þeirra fyrstu til þess að koma upp búnaði til súgþurrkunar. Var hún knúin af vatnsvirkjun á bænum er upp var sett árið 1932. Jóhannes hefur einmitt varðveitt stórmerkar heimildir um þessa byltingarkenndu búnaðarbót. Um Gest skrifaði nágranni hans, Magnús í Stóraási, m.a.: „Hann var framkvæmdamaður og flestum fremri með að tileinka sér nýjungar, sem hann taldi til heilla horfa.“

 

Fyrir nokkrum árum lét Jóhannes jörðina í hendur ungu nágrannafólki og flutti sig í Borgarnes þar sem hann dvelur nú á heimili aldraðra Borgfirðinga.