24. desember 2010 15:41

Erlendur yfirvélameistari Landbúnaðarsafns

 

Maður þessa dags er Erlendur Sigurðsson frá Sandhaugum í Bárðardal. Erlendur er rammur sveitamaður sem gríðarlega reynslu af öllu sem snertir vélar og tæki enda hafa þau verið honum samferða um vettvang lífsins, stór og smá. Erlendur hefur reynst Landbúnaðarsafn Íslands einstakur hollvinur um langt árabil. Í þakklætis skyni hefur safnið nú sæmt hann heiðurstitlinum yfirvélameistari Landbúnaðarsafns Íslands.

 

Erlendur hefur fágæta þekkingu á hvers konar vinnuvélum, man allt og veit allt, sama hvað er. Þekking hans stendur mörgum fótum eftir mannakynni víða um land.  Skrifara þessara lína hefur Erlendur margsinnis bjargað með fróðleik. Þá hefur hann oft vakið athygli á gripum sem vert væri að bjarga í safnið, og sjálfur dregið að ómetanlega gripi.

 

Nefna má líka að Erlendur hefur einnig lagt Samgönguminjasafninu í Ystafelli öflugt lið og stuðlað að farsælu samstarfi Hvanneyringa og Ystfellinga. Daglegum störfum sinnir Erlendur á verkstæði Jörva hf með Hauki Júlíussyni framkvæmdastjóra á Hvanneyri, sem eru  miklir og góðir samstafsaðilar Landbúnaðarsafns.

 

Erlendur hefur gert mörgum grip Landbúnaðarsafnsins til góða með viðgerðum, lagfæringum og nauðsynlegri hirðu. Þegar kemur að því að knýja þá sporum tekst Erlendi alltaf að fá í þá hæfilegan gang. Við safnmenn eigum því margt að þakka Erlendi, og líka marga skemmtilega stund við fornvélabauk. Mörg perlan hefur þá hrotið af vörum Erlendar ellegar góð saga sem skreytt hefur augnablikið. Engin vél safnsins er svo rómsterk að kæfi hljómmikla rödd hans þegar hann með þingeyskum framburði gefur okkur hinum, sem löngu er þá hætt að heyrast í, skýrar skipanir um hvað gera skuli.

 

Þannig lúta bæði dauðir og lifandi safngripir yfirvélameistara sínum.