25. október 2011 17:28

Steinunn Frímannsdóttir

Að þessu sinni er maður dagsins frú Steinunn Frímannsdóttir (1863-1947), norðlensk að uppruna, lengi húsfreyja á Möðruvöllum í Hörgárdal og síðar á Akureyri, mikil búkona, eins og dóttir hennar Hulda Á. Stefánsdóttir (grasafræðings og skólameistara Stefánssonar), hefur sagt frá í frábæri æviminningabók sinni: „Hún fylgdist vel með því, sem gerðist í búskap bænda, og fagnaði öllum framförum“, skrifaði Hulda þar (bls. 116. Bernska).

 

Ástæðan fyrir því að frú Steinunn Frímannsdóttir er hér valin maður dagsins er skýrð þannig út í kafla úr óbirtu bókarhandriti um Sláttusögu Íslands:

 

 

„Viðarorf voru einráð fram á 20. öld; sóst var eftir eski ef velja mátti en líka var notað birki. Halldór á Hvanneyri vildi áttstrenda askstöng í orfið, tæpa 2 metra á lengd.  Mikilvægt var að rétt lægi í viðnum og hann kvistalaus. Fyrir utan brot slitnuðu orfin helst við það að viðurinn gliðnaði um æðarnar/árhringina. Þá tók orfið að fjaðra og ljárinn að leika sem laus væri í orfinu. Eyddi það kröftum sláttumannsins að óþörfu. Ekki áttu allir mikið val um efni í orfin. Það varð að sameina léttleika og styrk. Ósjaldan stóðu menn því uppi með sterk orf en þung ...

 

Því var það síst að undra að hugvitsmenn reyndu notkun einhvers hinna „nýju“ efna sem iðnvæðingin hafði alið af sér. Einn þeirra var Svarfdælingurinn Sveinbjörn Jónsson (1896-1982), löngum kenndur við Ofnasmiðjuna. Árið 1932 kom hann fram með amboð úr aluminium-pípum, og var það nýjung. Hugmyndina mun hafa átt Steinunn Frímannsdóttir, lengi húsfreyja á Möðruvöllum í Hörgárdal. „Henni voru minnisstæðar verktafirnar við brotin orf, hrífur og hrífutinda. Oft hafði hún velt því fyrir sér, hvort ekki mætti smíða þessi amboð úr léttara efni og óbrotgjarnara. Datt henni helst í hug aluminium, sem tíðkðist þá í hnífapörum og var létt“... Fékk hún Sveinbjörn, er þá starfaði sem byggingameistari á Akureyri, til smíðinnar. Það var fyrir hvatningu og áeggjan Steinunnar að Sveinbjörn stofnaði til alumíníum-amboðagerðarinnar Iðju á Akureyri árið 1932.“

 

Myndin, sem þessari klausu fylgir, er tekin traustataki úr bókinni Minningar Huldu Á. Stefánsdóttur, Bernska 1985, sögð tekin í Kaupmannahöfn af Steinunni um tvítugsaldur.