3. febrúar 2012 13:53

Ágúst Andrés Jónsson

Nafn dagsins er Ágúst Andrés Jónsson. Hann var fæddur 28. júní 1907 í Reykjavík. Hann nam við Hvítárbakkaskólann veturinn 1924-1925. Lauk síðan rafvirkjanámi og varð einn umsvifamesti rafverktaki í höfuðborginni með fyrirtæki sínu, Rafvirkjanum sf á Skólavörðustíg 22. Ágúst dvaldi ungur um fjörgurra ára skeið í Alaska og Bandaríkjunum og kynnst atvinnuháttum og fólki þar vestra. Hann hafði einnig mikinn áhuga á landbúnaði og keypti jörðina Hraunkot í Grímsnes, lítt og illa hýsta. Jörðin stórbætti Ágúst og hóf að gera þar margvíslegar landbúnaðartilraunir, m.a. með ræktun korns, baunagrass, ýmissa afbrigða af kartöflum ofl. Þá reyndi hann einnig ýmsar nýjungar í verktækni og vélum til búskapar. Alifuglarækt stundaði hann einnig, ræktaði m.a. Peking-endur og kalkúna, en þeir höfðu ekki verið aldir hérlendis áður.

Samhliða umfangsmiklu starfi sínu á sviði rafverktöku flutti Ágúst inn litlar vatnsaflsstöðvar til heimilisnota og var brautryðjandi á því sviði, m.a. í samstarfi við Sigfús á Geirlandi á Síðu, þann þekkta vatnsvirkja. Búvélar ýmsar flutti hann inn, m.a. notaðar dráttarvélar frá Bretlandi. Ágúst átti mikil og náin samskipti við bændum um allt land.

Í landbúnaðarsögunni fær Ágúst Jónsson sérstakt sæti fyrir það að vera brautryðjandi á sviði súgþurrkunar á heyi hérlendis. Með tengslum sínum vestur um haf og á grundvelli nýrrar tækniþekkingar þaðan hóf hann að kynna bændum þessa tækni hérlendis. Sendi hann fjölda bænda teikningar af súgþurrkunarkerfum, útvegaði þeim tæknibúnað til þurrkunarinnar og síðast en ekki síst var þeim til ráðgjafar um vinnubrögðin, sem voru flestum mjög framandi. Varði Ágúst miklum tíma til þessa starfs og fór víða um sveitir til þess. Alþingi veitti Ágústi nokkurn styrk til þess að vinna að súgþurrkunarmálum (1961).

Ágúst Jónsson setti upp fyrsta súgþurrkunarkerfið hérlendis. Það var á Vífilsstöðum, tekið í notkun sumarið 1944: „Annaðist hann uppsetningu vélanna, fyrirkomulag,  þeirra og annan búnað. Aðferð þessi við heyþurrkun hefir verið hagnýtt í Bandaríkjunum um nokkur undanfarin ár.  Hefir Ágúst kynnt sér þetta nokkuð með það fyrir augum, að það mætti verða til gagns fyrir íslenskan landbúnað“ skrifaði Björn bústjóri Konráðsson á Vífilsstöðum í nóvember 1944, og ennfremur: „Þessi tilraun, sem hér um ræðir, þótt í smáum stíl sé, gefur góðar vonir um það, að hagnýta megi þessa þurrkunaraðferð til stórmikilla bóta fyrir íslenskan landbúnað.“

Tilgáta Björns reyndist rétt. Tilraun Ágústs á Vífilsstöðum sem og umfangsmikið frumkvöðuls- og ráðgjafarstarf hans næstu árin hrundu hvað helst af stað byltingu í heyverkun hérlendis, þeirri mestu í heyskap síðan ensku ljáblöðin komu tæplega 80 árum fyrr, fyrir tilstilli Torfa Bjarnasonar. Í stað þess að velta heyi á velli í fimm-sex þurrkdaga dugðu nú oftast tveir til þess að ná heyinu súgþurrkunartæku. Getur þá hver reiknað vinnusparnaðinn. Súgþurrkun á einu eða öðru formi mun hafa náð til fast að 80% bændabýla hérlendis.

Ágúst Jónsson lést 24. apríl 1985.