5. júní 2012 11:44

Guðmundur Jónsson

Það er vonum seinna sem við köllum fram nafn Guðmundar Jónssonar frá Torfalæk í þessum dálki. Satt að segja á Guðmundur meiri þátt en flestir aðrir í því að forveri Landbúnaðarsafns Íslands, Verkfærasafn ríkisins, sem stofnað var með lögum árið 1940, varð að raunveruleika á Hvanneyri.


Guðmundur mun þegar árið 1940 hafa látið sér annt um safnið, sem þá skyldi sýna bændum og bændaefnum það sem nýjast væri og fínast í verkfærum og verktækni til bústarfa. Hann gerði t.d. fyrstu munaskrá safnsins og hélt yfir safninu hlífiskildi. Um þær mundir var Guðmundur kennari á Hvanneyri. Hann átti þá m.a. stóran hlut í útgáfu ársritsins Búfræðingurinn, sem út kom á árunum 1934-1954. Í því riti birtist fjölmargt um búvélar og tækni, margt sem komið var úr penna Guðmundar, er mjög var áhugasamur um tækniframfarir landbúnaðarins. Minna má á að jafnhliða lét hann sér mjög annt um hina hagrænu hlið búrekstrarins, og mætti það líka verða bændum nútímans og starfsmönnum þeirra verðug fyrirmynd.  

Í Búfræðingnum birti Guðmundur m.a. ýmsar frásagnir bænda, gjarnan eldri nemenda Hvanneyrarskóla, um tækninýjungar sem þeir höfðu hannað og reynt – íslenskar tæknilausnir, sem sumar hverjar má telja sögulega merkar.  Margar gleymdar nú en voru liðir í sögu mikils breytingaskeiðs.
Guðmundur var formaður Verkfæranefndar ríksins frá 1946 þar til hún var lögð niður árið 1965. Á vegum nefndarinnar mótaðist merkilegt starf að prófun búvéla svo og tilraunum og rannsóknum með þær og fleira varandi búverk og bústörf.
Óþarfi er að tíunda hin mörgu störf Guðmundar í þágu landbúnaðar frekar, svo þekktur sem hann var. Þeir eru margir sem enn muna hann sem kennara og skólamann og ekki síður sem góðan félaga og skemmtilegan samferðamann.
Guðmundur Jónsson var maður tuttugustu aldar, fæddur árið 2. mars 1902 og lést 28. nóvember árið 2002.
Myndin af Guðmundi, sem hér er fylgir er tekin þegar hann var að kynna nemendum sínum notkun sprengiefnis til skurðagerðar, en það þótti athyglisverð nýjung undir miðja síðustu öld. Guðmundur heldur á púðurtúpu í vinstri hendi!