22. október 2012 10:08

Þvottakonan

Nafn dagsins er þvottakonan. Ekki bara einhver þvottakonan, heldur þvottakonan sem upplifði það að ný óhreinindi voru komin á vinnuföt karlanna sem hún þjónaði samtíma sínum samkvæmt: Karlarnir voru farnir að umgangast traktora, þessar framandi maskínur komnar vestan um haf og gengu ekki bara fyrir heyi og vatni eins og fyrri aflgjafar heldur innfluttum framandvökum, þunnum og þykkum – til gangs og smurnings.

 

Og þar sem traktorarnir óðust út í undarlegum óhreinindum fór ekki hjá því að áhugasamir ökumennirnir óhreinkuðu hendur sínar og föt með þessum nýja ódámi. Sjálfir tóku þeir lítið eftir honum því spenningurinn yfir hinum framandi tækjum yfirskyggði allt.

 

En yfir þvottabalanum kom hin nýja staðreynd í ljós. Olíuskítinn dugði ekki að þvo úr með vatni og heimagerðri sápu, m.a. úr sauðafitu, eins og hin frumstæðu og lífrænu hvunndagsóhreinindi aldanna. Nú þurfti að grípa til sterkari meðala: Vaskepúlver af ýmsum sortum tóku að bjóðast í höndluninni, sum hver ekki par holl fyrir hendur og vit í myrkum og þröngum eldhúsum og þvottakjöllurum.

 

Í beinum og óbeinum skilningi voru hin nýju óhreinindi útgjaldaliður í ársreikningi nýrra tíma. Frá honum hefur óvíða og ef til vill hvergi verið sagt svo skrifaranum sé kunnugt. Þess vegna er vakin athygli á honum nú og hér í þessum dálki heimasíðunnar.

 

Á viðfangsefnið var skrifarinn minntur þegar hann tók við hvað síðustu gripunum úr hendi heiðursmannsins Tómásar Helgasonar frá Hnífsdal, sem alltaf lét sér annt um safnið: Þvottabretti úr tré og gleri og ónotaðan pakka af Sólskinssápu – tvö helstu vopn þvottakonunnar sem minnst er með þessum línum. Heiður henni.