10. mars 2014 15:58

Lilja Sigurðardóttir

Lilja fæddist að Víðivöllum í Blönduhlíð árið 1884 og lést árið 1970.  Hún var vel menntuð kona; nam við Kvennaskóla Eyfirðinga en sigldi síðan til Danmerkur þar sem hún lærði hannyrðir, garð- og trjárækt og sótti námskeið í hjúkrun og hjálp í viðlögum.  Er heim kom tók hún að miðla þekkingu sinni með námskeiðum í garðyrkju er kveiktu áhuga margra auk þess sem hún miðlaði fræi og ungplöntum. Víða mátti sjá afrakstur þessa starfs,  Liljusporin er svo voru nefnd.

 

Garður hennar að Víðivöllum varð landsþekktur.  Lilja kenndi við húsmæðraskólana á Blönduósi og á Löngumýri og annaðist hjúkrunarstörf sem orð fór af.

Lilja starfaði um hríð á Hvanneyri, á meðan fóstursonur hennar, Friðjón, var þar í námi, og það var þá sem Runólfur Sveinsson, nýtekinn skólastjórn á Hvanneyri, fól Lilju að umbreyta skólagarðinum þar, líklega sem hluta af umbótum vegna 50-ára afmælis Bændaskólans. Undir kunnáttusamlegri stjórn Lilju fékk garðurinn sennilega það form sem hann hefur nú. Þá virðist garðurinn hafa orðið skrúðgarður. „Í blómagarðinum var jafnan unnið, gróðursett tré og blóm, en mest og best var hann skipulagður af Lilju Sigurðardóttur frá Víðivöllum í Skagafirði“ ... skrifaði Guðmundur Jónsson, síðar skólastjóri á Hvanneyri. Garðurinn er hluti af söguumhverfi Gamla staðarins á Hvanneyri.

Eftir Hvanneyrardvölina byggði Lilja nýbýlið Ásgarð úr landi Víðivalla með fóstursyni sínum, en hún hafði lengi alið draum um fastan samastað sem hún gæti hlúð að og komið upp garði eða skógarteig eftir eigin höfði. Byggingarnar að Ásgarði eru mjög sérstæðar og svipmiklar, eins og sjá má af þjóðveginum um Blönduhlíð.

Lilju Sigurðardóttur var ýmis sómi sýndur. Hún var sæmd riddarakrossi Fálkaorðunnar árið 1959 fyrir garðyrkjustörf, heimilisiðnað og störf að félagsmálum og frá árinu 1967 naut hún heiðurslauna samkvæmt fjárlögum.