Heim » Sýningar » Saga laxveiða
Saga laxveiða í Borgarfirði
Sýningin Saga laxveiða í Borgarfirði opnaði 20. júní 2025. Sýningin þemaskipt og tekur á margvíslegum sviðum tengdum laxveiðum og mun standa til framtíðar í safninu sem ein af miðlunarþáttum þess. Þið finnið sýninguna í kjallara safnsins inn af grunnsýningunni.  
Saga laxveiða í Borgarfirði er rannsóknaverkefni sem byrjaði 2022 innan Landbúnaðarsafnsins. Þar sem laxveiðar í Borgarfirði eru skoðaðar út frá mörgum þáttum s.s. sögu, menningu, efnahag, náttúru-og líffræði. Verkefnið nær til sveitarfélagsins Borgarbyggðar, þó áherslan sé á þeim veiðiám sem renna í Hvítá/Borgarfjörð. Nánar tiltekið Hvítá, Langá, Gljúfurá, Gufuá, Norðurá, Þverá/Kjarará, Reykjadalsá, Flóká, Grímsá/Tunguá og Andakílsá. Svæðið er því frá uppsveitum Borgarfjarðar og vestur að Haffjarðará.
Rannsóknarverkefnið hefur teygt anga sína víða og hafa samstarfsaðilar verið m.a. HAFRÓ,  Erfðalindasetrið, Safnahús Borgarfjarðar og veiðifélög í héraðinu.

Saga laxveiða í Borgarfirði er öndvegisverkefni sem fékk öndvegisstyrk frá Safnasjóði (2022) sem og styrk frá Fiskræktarsjóð Íslands (2025). Einnig hefur safnið fengið styrki frá Uppbyggingarsjóði Vesturlands (2022, 2023, 2024 og 2025) sem snerta á ákveðnum sviðum þess. Eins hafa Veiðifélög Norðurá, Gljúfurá, Grímsá, Gufuá og Hvítá styrkt verkefnið.