Heim » Um safnið » Sagan okkar
Saga safnsins

Landbúnaðarsafn Íslands er byggt á grunni Búvélasafnsins sem starfað hafði á Hvanneyri um langt árabil. Búvélasafnið rakti sögu sína til ársins 1940. Samkvæmt lögum nr. 64/1940 um rannsóknir í þágu landbúnaðarins skyldi þá komið upp safni af landbúnaðarverkfærum við Bændaskólann á Hvanneyri.

Lítið var lengi vel unnt að gera sakir fjárskorts. Guðmundur Jónsson skólastjóri bjargaði þó ýmsum verkfærum og hélt yfir þeim hlífiskildi. Búnaðarfélag Íslands gaf safninu verðmæta gripi frá Ólafsdalsskólanum og frá búi Thors Jensen á Korpúlfsstöðum og fleirum bárust einnig ýmis verkfæri. Þessir gripir eru meðal merkustu gripa safnsins í dag.

Árið 1987 opnaði Búvélasafnið í smáum stíl þar sem nokkrar vélar voru til sýnis og útbúin hafði verið dálítil geymslu- og sýningaraðstaða. Árið 2007, 14. febrúar, er stofndagur Landbúnaðarsafnsins þar sem við tók ný skipulagsskrá og söfnunaráherslur. Ekki var lengur aðeins horft til búvéla og verkfæra heldur landbúnaðarins eins og hann leggur sig.

Það var svo þann 20. febrúar 2014, að safnið fékk formlega viðurkenningu frá Safnaráði.

Safnstjóri er Ragnhildur Helga Jónsdóttir.

Forsaga – Bakgrunnur

Forverar safnsins, Búvélasafnið og þar áður Verkfærasafn, voru hin dæmigerðu gripasöfn. Velvildarmenn höfðu fært safninu einstaka gripi eða smásöfn þeirra, þar sem gripurinn sjálfur var hið sögulega verðmæti. Svo hraðfara voru breytingarnar að nánast flest sem til gamalla véla og verkfæra taldist hafði sögulegt gildi í einhverjum skilningi. Um söfnun á grundvelli sögulegra rannsókna var vart að ræða. Miklu réði að um væri að ræða „fyrsta tækið“ eða „eina tækið“ sem til landsins kom; líka að menn vildu varðveita traktorinn „sinn“ eða „hans NN.“ Engin ástæða er til þess að kasta rýrð að þessum söfnunarháttum því þeir hafa skilað safninu verðmætum gripum og góðvild og framsýni gefendanna/ safnaranna á safnið tilvist sína að mestu leyti að þakka.

Árið 1999 naut Búvélasafnið aðstoðar Þórs Magnússonar þáv. Þjóðminjavarðar við að setja saman drög að söfnunarstefnu. Varð hún til þess að skerpa meginstefnu safnsins auk þess að gera aðdrætti markvissari sem og mat á þem gripum sem safninu boru boðnir. Þeirri stefnu hefur verið fylgt í helstu atriðum þótt áfram hafi borist gripir að frumkvæði gefenda.

Vegna rýmis og kostnaðar af ýmsu tagi er hins vegar ljóst að hlutasöfnun ein dugir ekki til þess að gera landbúnaðarsöguna sýnilega. Hér þarf að fylgja fordæmi landbúnaðarsafna og nýta fleiri leiðir til minjasöfnunar og –vörslu. Í eftirfarandi línum er m.a. stuðst við leiðbeiningar danska landbúnaðarsafnsins: Kassations- og indsamlingspolitik samt strategi for dokumentation på Dansk Landbrugsmuseum, Gl. Estrup eftir Jens Aage Søndergaard, museumsinspektør þar (2007).