Heim » Um safnið » Skipulagsskrá
Skipulagsskrá
fyrir

Landbúnaðarsafn Íslands ses.

1.gr.
Heiti
Félagið er sjálfseignarstofnun og er nafn þess Landbúnaðarsafn Íslands.

2. gr.
Heimili
Heimilisfang sjálfseignarstofnunarinnar er á Hvanneyri, Borgarbyggð.

3.gr.
Hlutverk og starfsemi
Hlutverk Landbúnaðarsafns Íslands ses. er að gera skil sögu og þróun íslensks landbúnaðar með því að varðveita gögn, gripi og aðrar minjar um hana, og annast rannsóknir og fræðslu um viðfangsefnið.

Landbúnaðarsafn Íslands ses. leggur sérstaka áherslu á sögu landbúnaðarins frá byrjun tæknialdar í landbúnaði með rannsóknum sem og almennri kynningu á sögu hans og stöðu og hvers konar miðlun hennar, ýmist eitt sér eða í samvinnu við aðila sem til hennar eru fúsir.

Í starfi sínu skal Landbúnaðarsafn Ísland ses. hafa samráð og samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands og aðra opinbera aðila er annast minjavernd og –vörslu í landinu, þ.m.t. byggðasöfn.

4.gr.
Stofnendur
Stofnendur Landbúnaðarsafns Íslands ses. eru Landbúnaðarháskóli Íslands kt. 411204-3590, Bændasamtök Íslands kt. 631294-2279 og sveitarfélagið Borgarbyggð kt. 510694-2289.

5. gr.
Framlag stofnenda
Stofnfé Landbúnaðarsafns Íslands ses. er kr. 1.000.000.- – ein milljón króna – Greiðir Landbúnaðarháskóli Íslands kr. 600.000.- – sexhundruð þúsund krónur – en hvor hinna stofnendanna tveggja kr. 200.000.- – tvöhundruð þúsund krónur.

Stofnunin ber ábyrgð á skuldbindingum sínum með öllum eignum sínum og öðrum þeim eignum er hún kann að eignast síðar.

Engin sérréttindi í stofnuninni tilheyra stofnendum hennar.

6. gr.
Yfirtaka á réttindum og skyldum stofnenda
Landbúnaðarháskóli Íslands lánar Landbúnaðarsafni Íslands ses. þá safnmuni sem mynduðu Búvélasafnið á Hvanneyri til varðveislu, notkunar og áframhaldandi reksturs. Fáist til þess heimild Alþingis mun Landbúnaðarháskóli Íslands afhenda Landbúnaðarsafni Íslands ses. þessa muni til eignar skv. skrá um þá.

7.gr.
Stjórn.
Stjórn stofnunarinnar skal skipuð fjórum mönnum og fjórum til vara. Skal skipunartími stjórnar vera fjögur ár.

Í stjórnina skipar Landbúnaðarháskóli Íslands fulltrúa og skal hann vera formaður stjórnar sbr. þó 4. mgr. þessarar greinar. Þá skipa Bændasamtök Íslands og Borgarbyggð hvor sinn fulltrúann í stjórn safnsins. Fjórða fulltrúann skipar ráðherra sá er fer með landbúnaðarmál. Varafulltrúar skulu skipaðir með sama hætti. Stjórnin skiptir að öðru leyti með sér verkum.

Stjórnarmaður getur hvenær sem hann óskar látið af stjórnarstörfum. Láti stjórnarmaður af stjórnarstörfum tekur varamaður, sem tilnefndur var af sama aðila og viðkomandi stjórnarmaður, sæti hans í stjórn. Skal þá nýr varamaður valinn í stjórn með sama hætti og greinir í 2. mgr. Stofnendur geta hvenær sem er innan kjörtímabils afturkallað val á stjórnarmanni og varamanni, og valið annan aðila í stað viðkomandi, sem frá þeim tíma tekur við réttindum og skyldum þess stjórnarmanns/varamanns sem hann er valinn fyrir.

Sé framkvæmdastjóri jafnframt stjórnarmaður má hann ekki vera formaður stjórnar heldur skal þá formaður kjörinn úr hópi annarra stjórnarmanna.

Stjórnin stýrir öllum málefnum stofnunarinnar og kemur fram út á við fyrir hönd hennar. Stjórnin skal sjá til þess að skipulag og starfsemi stofnunarinnar sé jafnan í réttu og góðu horfi. Undirskriftir meirihluta stjórnar skuldbinda stofnunina. Stjórn stofnunarinnar getur veitt prókúruumboð fyrir stofnunina. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum í stjórn stofnunarinnar. Falli atkvæði hjá stjórn jöfn ræður atkvæði formanns.

Þóknun til stjórnarmanna skal ákveðin á ársfundi félagsins.

8. gr.
Stjórnarfundir.
Formaður stjórnar boðar til stjórnarfunda. Hver stjórnarmaður getur krafist stjórnarfunda. Sama rétt á framkvæmdastjóri. Boða skal til stjórnarfunda með tryggilegum hætti. Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnar sækir fund. Mikilvæga ákvörðun, svo sem varðandi fjárhag stofnunarinnar, má þó ekki taka án þess að allir stjórnarmenn hafi haft tök á að fjalla um málið, sé þess nokkur kostur. Afl atkvæða ræður afgreiðslu mála. Aðalatriði þess sem fram fer á stjórnarfundum skal færa til bókar.

Stjórnarmaður má ekki taka þátt í meðferð einstaks máls ef það málefni, sem fyrir liggur til ákvörðunar, skiptir hann verulegu máli fjárhagslega eða siðferðilega.

9. gr.
Framkvæmdastjóri
Stjórn stofnunarinnar ræður framkvæmdastjóra og ákveður starfskjör hans. Framkvæmdastjóri hefur með höndum stjórn á daglegum rekstri stofnunarinnar og kemur fram fyrir hönd hennar í öllum málum sem varða venjulegan rekstur. Hann sér um reikningshald, gerð rekstraráætlunar og ráðningu starfsliðs. Framkvæmdastjóri á rétt til setu á stjórnarfundum þótt hann sé ekki stjórnarmaður. Framkvæmdastjóra ber að veita stjórnarmönnum og endurskoðendum allar upplýsingar um rekstur stofnunarinnar, sem þeir kunna að óska og veita ber samkvæmt lögum.

10. gr.
Fjáröflun
Tekjur Landbúnaðarsafns Íslands ses. eru styrkir, gjafir og önnur framlög sem stofnuninni kunna að berast, einnig tekjur af sölu efnis og þjónustu, leigu, aðgangseyri, vaxtatekjur og aðrar tekjur.

11. gr.
Reikningar og endurskoðun
Starfsár og reikningsár Landbúnaðarsafns Íslands ses. skal vera almanaksárið. Stjórn stofnunarinnar skal ganga frá ársreikningi hennar fyrir 1. júní ár hvert. Ársreikningur stofnunarinnar skal áritaður af löggildum endurskoðanda sem stjórn hennar velur.

12. gr.
Ársfundur
Stjórnin skal halda ársfund þar sem reikningar og starfsemi Landbúnaðarsafns Íslands ses. er kynnt. Ársfundurinn skal vera öllum opinn sem hann vilja sækja. Á ársfundi skal jafnframt tilkynnt um val á stjórnarmönnum sé kjörtímabil þeirra á enda. Ársfundur er upplýsingafundur og hefur fundurinn ekki ákvörðunarvald á starfsemi stofnunarinnar. Samþykktir ársfundar fela aðeins í sér tilmæli til stjórnar stofnunarinnar og eru ekki bindandi. Ársfundurinn skal haldinn fyrir júnílok ár hvert.

Stjórn Landbúnaðarsafns Íslands ses. skal skylt að veita stofnendum sérstaka skýrslu eða skýringar varðandi einstaka þætti starfseminnar samkvæmt beiðni þar um og svara þeim fyrirspurnum sem að henni er beint frá þessum aðilum, eftir því sem unnt er.

13. gr.
Ráðstöfun eigna og hagnaðar
Hagnaði sem verður af starfsemi stofnunarinnar skal varið til þeirra verkefna er greinir í 3. gr. samþykkta þessara. Þó er stjórn hennar heimilt að leggja sanngjarna fjárhæð til hliðar til að tryggja fjárhagsstöðu og áframhaldandi rekstur stofnunarinnar.

Hugsanlegt tap af starfsemi stofnunarinnar verður greitt úr sjóðum félagsins eða fært á næsta reikningsár.

14. gr.
Breyting á skipulagsskrá
Heimilt er að breyta skipulagsskrá þessari með samþykki allra stjórnarmanna stofnunarinnar. Til að auka skuldbindingar stofnenda þarf samþykki þeirra.

15. gr.
Slit stofnunarinnar
Með tillögum um slit og skipti á stofnuninni skal fara sem breytingar á skipulagsskrá þessari skv. 14. gr. Komi til þess að stofnunin verði lögð niður skulu eignir hennar renna til Landbúnaðarháskóla Íslands eða annarrar ríkisstofnunar er annast landbúnaðarfræðslu og/eða þjóðminjavörslu sem skal leitast við að verja þeim til hliðstæðra verkefna og tilgreind eru í 3. gr. Skulu þær ráðstafanir gerðar í samráði við Þjóðminjasafn Íslands og Mennta- og menningarmálaráðuneytið.

16. gr.
Annað
Þar sem ákvæði skipulagsskrár þessarar ná ekki til um hvernig með skuli farið, skal hlíta ákvæðum laga um sjálfseignarstofnanir sem stunda atvinnurekstur nr. 33/1999, svo og öðrum lagaákvæðum er við geta átt.

Sjálfseignarstofnunin skal einnig fara að gildandi safnalögum (lög nr. 141 28. sept. 2011) og siðareglum ICOM (International Council of Museums).

Þannig samþykkt á stofnfundi Landbúnaðarsafns Íslands ses., þann 14. febrúar 2007, og með síðari breytingum, samþykktum skv. 14. grein 12. júní

2020. Ragnhildur Helga Jónsdóttir. Safnstjóri – prókúruhafi Landbúnaðarsafns Íslands