Heim » Um safnið » Safnkostur og aðbúnaður » Söfnunarstefna
Söfnunarstefna
Íslensku munasöfnin, t.d. byggðasöfnin, geyma marga gripi sem tilheyrðu bústörfum eldri tíma. Hið sama á við höfuðsafnið, Þjóðminjasafn Íslands. Engin ástæða er til þess að Landbúnaðarsafn sinni þeim verkþætti sérstaklega en leiti fremur eftir samstarfi við þessa aðila um munalán vegna sýninga, rannsókna ofl. Hins vegar er hlutverk Landbúnaðarsafns á svið hins tæknivæddari landbúnaðar sem einkum kemur til sögu í kringum fyrri aldamót. Leitast verði við að fylgja þar sömu stefnu og t.d. Dansk landbrugsmuseum hefur lýst þannig:

„indsamlingen på Dansk Landbrugsmuseum [skal] i fremtiden være styret af forskning og undersøgelser. Det skal forstås således, at i forbindelse med forskningsprojekter, som ligger inden for de arbejdområder, som Dansk Landbrugsmuseum skal genstandsdokumentere, der skal der udarbeejde et begrundet liste over genstande, som bör hjemtages til museets samlinger“

Með öðrum orðum að reynt verði byggja söfnun og aðdrætti sem mest á rannsóknum safnsins innan verksviðs síns. Þannig verði til skrá um þá muni sem mikilvægast er að bjarga undan tímans tönnum. Þótt efni og geta Landbúnaðarsafns bjóði ekki upp á mikið í þessum efnum sýnist hins vegar mega gera stefnu hinna dönsku kollega að viðmiðun þegar vöngum er velt yfir grip sem falur er til safnsins; að þá sé fylgt verkaröðinni:

  • Ábending um grip
  • Rannsókn á sögu gripsins og stöðu hans í sögulegri þróun
  • Ákvörðun um töku gripsins
  • Forvarsla / Geymsla / Sýning

Á meðan rannsóknir á vegum Landbúnaðarsafns eru enn takmarkaðar er lagt til að söfnunarstefna þess miði að því að safnið geti sagt meginsögu landbúnaðarins og þá sérstaklega eftir að verktækni tók að breytast til nútímahátta. Þannig verði reynt að afla muna og varðveita sem varpa ljósi á einkennisþætti hennar. Einkum skal því safna munum er falla undir eftirfarandi flokka:

Hestaverkfæri:
til jarðyrkju, heyskapar og flutninga. Hér undir flokkast m.a. aktygi á hesta, plógar, herfi, ávinnslu- og forartæki, hestasláttuvélar, snúnings- og rakstarvélar fyrir hesta, hestakerra, heygrind, heysleði…

Dráttarvélar:
hinar fyrstu gerðir sem hingað fluttust og aðrar sem voru algengastar heimilisdráttarvélar fram um 1980; um yngri gerðirnar gildir strangt úrval þar sem algengi tegundar og umfangsmikil áhrif þeirra ráða vali. Áhersla er lögð á að ná mikilvægum verkfærum með dráttarvélunum, sjá hér síðar…

Jarðýtur:
International TD6 og Caterpillar D2 með algengustu fylgihlutum og –verkfærum…

Skurðgröfur:
Priestman Cub (árgerð 1942), viðgerðargálgi…

Verkfæri til jarðræktar, heyskapar og flutninga, tengd þeim dráttarvélum sem fyrr eru nefndar, heybindivél og heyhleðsluvagn, einnig rúllubindivél frá fyrsta innflutningsárinu…

Fóðrun og gripahirðing:
Algengustu áhöld, tæki, efni ofl. sem tengjast hirðingu gripa um ársins hring, sérstaklega nautgripa og sauðfjár, þar með gögn og búnaður talið vegna skýrsluhalds, heilsugæslu (dýralækningar) ofl…

Vélar til afurðavinnslu á sveitabýlum:
mjaltavélar með skyldum tækjum, skilvindur, vélstrokkar og aðrar smjörgerðarvélar …

Tóvinnuvélar:
Spunavél (handknúin), rafknúinn spunarokkur, prjónavélar (hringprjónavél og hefðbundin)…samráð haft við Ullarselið á Hvanneyri…

Mjólkurvinnsla:
Vélknúin áhöld til mjólkurvinnslu á búunum, frá komu skilvindunnar…mjaltavélar og fulltrúar þeirrar tækni er henni fylgdi…

Efni og aðföng:
Umbúðir og aðrar minjar tilbúins áburðar, sáðvöru, fóðurs og annarra aðfanga landbúnaðarins…

Bílar til búverka:
Willys-jeppi af elstu gerð, sömuleiðis Land-Rover af elstu gerð og búverkfæri er þessum bílum fylgdu…

Innlend landbúnaðarverkfæri og verkfæri sérstaklega löguð að íslenskum aðstæðum og smíðuð af Íslendingum:
innlend hönnun t.d. heyskúffa, heyvagnar og sleðar, súgþurrkunarbúnaður ofl.…

Rannsókna-, leiðbeininga og kennslusaga landbúnaðarins:
gögn og hverskonar áhöld er tengjast þekkingarsögu landbúnaðarsins …. samráð haft við LbhÍ

Bækur, bæklingar, kyrrar myndir og kvikar, hljóðskrár, handrit og önnur heimildagögn um búvélar, verkfæri, aðföng og efni, og tæki sem snerta safnmuni og verksvið safnsins…Hvað bækur snertir verði samráð haft við Bókasafn LbhÍ. Varðandi myndir skal samráð haft við Ljósmyndasafn Íslands/Þjóðm.safn og Kvikmyndasafn Íslands…