Heim » Fróðleikur » Hvanneyri
Um Hvanneyri

Hvanneyri er landnámsjörð, numin af Skalla-Grími sem bjó á Borg en Grímur hinn háleyski bjó á Hvanneyri. Í Landnámu stendur að Skalla-Grímur hafi gefið Grími hinum háleyska Þórissyni land „fyrir sunnan fjörð á milli Andakílsár og Grímsár. Hann bjó á Hvanneyri. Tímanna rás var fremur hljótt um staðinn fram á nítjándu öld, en þó er vitað til þess að á Hvanneyri var kirkja á tólftu öld. Ekki var Hvanneyri höfðingjasetur en oft sátu þar betri bændur. Á 15. öld bjuggu þar tengdafeðgar, Auðunn hyrna Salómonsson sem átti mest alla bændaeign í Borgarfirði og Vermundur Kolbeinsson sem var mun ríkari. Frá 1793 var amtmannssetur á Hvanneyri er þar bjó Stefán Stephensen til ársins 1811 þegar hann flutti að Hvítárvöllum.

Breitt búnaðarfræðsla 1980

Um 1980 var gerð róttækt breyting á hinu almenna búnaðarnámi í kjölfar nýrrar löggjafar um búnaðarfræðslu, er sett var 1978. Nám í bændadeild skólans varð tveggja ára nám. Farið var að meta það til eininga líkt og námí öðrum framhaldsskólum. Hlutur hins verklega náms var efldur og aukinn.

Fjósið (Halldórsfjós) -Landbúnaðarsafn íslands og ullarselið

Fjósið á Hvanneyri er teiknað af Guðjóni Samúelssyni og var byggt á árunum 1928-1929. Það var byggt fyrir 80 gripi og þótti stórt og vandað á sínum tíma. Á fjósloftinu var íbúð og þar var einnig efnarannsóknastofa skólans um 40 ára skeið. Landbúnaðarsafnið flytur í þetta hús árið 2013. Landbúnaðarsafn Íslands og Ullarselið eru staðsett í fjósinu. Ullarselið er verslun með vandað handverk, ullarvörur úr íslenskri ull og gæðahandverk úr íslensku hráefni. Í Landbúnaðarsafninu er að finna gamlar búvélar og verkfæri sem tilheyra tæknisögu íslensks landbúnaðar.

Fjósið (nýja fjós)

Þann 6. ágúst árið 2004 var tekið í notkun nýtt og glæsilegt kennslu- og tilraunafjós á Hvanneyri með 58 legubása fyrir mjólkurkýr. Í fjósinu er aðstaða til kennslu. Þar býr fjósakötturinn Rjómi sem tekur vel á móti gestum.

Gamla skólahúsið

Skólahúsið var reist sumarið 1910 eftir teikningu og forsögn Rögnvaldar Ólafssonar húsameistara. Þá var Halldór Vilhjálmsson skólastjóri á Hvanneyri. Í skólahúsinu voru heimavistarherbergi nemenda á efstu hæðunum tveimur og kennslustofur á fyrstu hæð, bjartar og rúmgóðar. Fyrir framan þær er forsalur „ætlaður eingöngu til áfloga og skemmtana,“ eins og skólastjóri orðaði það í skýrslu um framkvæmdir. Í forsalnum var flogist á, glímt og dansað vetur eftir vetur.

Halldór taldi að um þrjár milljónir punda af byggingarefni (1500 tonn) hefðu farið í húsið sem er steinsteypt. Hefur skólahúsið reynst hafa verið afar traustbyggt í hvívetna.

Byggingarmeistari hússins var Stefán Egilsson , faðir Sigvalda Kaldalóns tónskálds. Vitað er að annar sonur Stefáns, Eggert, síðar stórsöngvari, lagði líka hönd að húsbyggingunni. Má því vera að afmorssöngvar og framandi hetjuaríur hafi heyrst úr Hvanneyrarbátnum þegar hann sótti byggingarefnið í Borgarnes. Í kjallara skólahússins voru m.a. eldhús og borðstofa nemenda, þvottahús og hitunarvél, en mikil hersla var lögð á góða kyndingu hússins og loftræstingu þess. Þar niðri var svo sett olíuknúin ljósavél á þriðja áratugnum. Í kjallaranum var líka brunnur til vatnsöflunar. Öllu skolpi úr húsinu var safnað og það notað til áveitu yfir Hvanneyrarengjar.

Ósjaldan dvöldu í skólahúsinu 50-60 nemendur, í 2-6 manna herbergjum – stundum voru þeir fleiri saman. Um hríð var kennaraíbúð í skólahúsinu. Húsið var heimili, skóli og skemmtistaður Hvanneyringa í ríflega sextíu ár. Það geymir því sögu margra, mætti það mæla.

Og fleira má nefna úr sögu hússins:
– Ungmennafélagið Íslendingur var stofnað í nyrðri skólastofunni á fyrstu hæð þann 12. desember 1911. Fundaði þar oft síðan.
– Til var að messur væru sungnar skólahúsinu í vetrarkuldum. Jólatrésskemmtanir sóknarinnar voru haldnar þar um árabil – fram yfir 1970.
– Þar var rekið barnaheimili á stríðsárunum síðari með allt að sextíu börnum í sumardvöl.
– Sú fræga Skóla-Jóna er sögð hafa búið um sig í skólahúsinu á óskilgreindum tíma framanvert á ævi þess.
– Þýski búfræðingurinn Hellmut Lotz stundaði þar rannsóknir á votheysveiki (Hvanneyrarveiki) í sauðfé árið 1928. Lét Halldór skólastjóri útbúa fyrir hann lokaða rannsóknaaðstöðu í kjallara hússins. Minnstu munaði að dr. Lotz, þá enn bráðungur, næði að skýra til fulls orsök hinnar skæðu veiki.

– Háskólakennsla í búfræðum – fyrsta háskólakennslan hérlendis utan Reykjavíkur – hófst í þessu skólahúsi haustið 1947. Þá var þar líka settur vísir að kennslu-rannsóknastofu í efnafræði.
– Skólahúsið hefur a.m.k. í tvígang eftir óhöpp skotið þaki sínu yfir vegalausa starfsmenn skólans: fyrst við bruna skóla(stjóra)hússins haustið 1917, og síðan aftur haustið 1973, er þakið fauk af „Nýja verkfærahúsinu,“ því sem nú er gjarnan kallað Gamla-Bút.

Með tilkomu nýs skólahúss á Hvanneyri (nú Ásgarðs) á árunum 1965-70 fækkaði nemendum, er bjuggu í skólahúsinu. Það fékk því brátt nafnið Gamli skóli. Hluta herbergja á annarri hæð var breytt í kennslustofur og nokkur nemendaherbergi gerð að skrifstofum fyrir kennara skólans. Síðar var fleiri kennslustofum og snyrtingum komið fyrir í kjallara hússins. Hagþjónusta landbúnaðarins hóf starfsemi sína á annarri hæð hússins árið 1990 og starfaði þar fram yfir aldamótin. Raunar hafði Guðmundur Jónsson, síðar skólsatjóri, starfrækt búreikningastofu þar undir þaki þegar á fjórða áratug fyrri aldar.

Á sínum tíma var húsið með vönduðustu skólahúsum landsins hvað vist nemenda og kennsluaðstöðu snerti. Að megingerð og útliti heldur skólahúsið sinni upphaflegu gerð þótt það hafi verið bætt og því breytt á ýmsan veg í tímanna rás að kröfum þeirra. Bíslög voru til dæmis sett framanvið hvort anddyri og rúðusetningum glugga hefur verið breytt.

Nú er búið að koma upp þekkilegri gistiaðstöðu í fyrrum heimavistarherbergjum nemenda á annarri og þriðju hæð hússins.

Skólahúsið mótar með nálægum byggingum Gamla staðinn á Hvanneyri. Hann er einstakt safn verka fyrstu íslensku húsameistaranna, þeirra Rögnvaldar Ólafssonar, Einars Erlendssonar og Guðjóns Samúelssonar.

Bj.Guðm.

Umsögn landkönnuðar

Breski landkönnuðurinn G.M. MacKenzie kom að Hvanneyri um 1810 og fjallar um komu sína í ferðabók sem hann gaf út. Hann segir að búið sem amtmaður reki sjálfur sé talið það besta á landinu. Amtmaður bjó með 30 – 40 hross, 50 kýr og 200-300 kindur, „og aflar nægra heyja fyrir hinn stóra bústofn sinn til vetranna sem eru langir á Íslandi“. MacKenzie heldur því fram að Hvanneyri sé einhver besta jörðin á landinu og sé það einkum vegna engjanna með Hvítá, sem gefi mikið af sér. Árið 1886 var stærð engjanna um 400-500 dagsláttur og meðalheymagn árlega 3000-4000 hestburðir, en til samanburðar var túnið aðeins 46 dagsláttur og gaf af sér 370 hestburði af töðu. Þrjár jarðir hafa verið lagðar undir Hvanneyri (Kista, Ásgarður og Hamrakot), auk þess sem voru fjögur býli sem tilheyrðu Hvanneyri (Tungutún, Svíri, Staðarhóll og Bárustaðir). Afbýlin voru lögð undir Hvanneyri um svipað leyti og bændaskóli var stofnaður fyrir aldamótin 1900.

Bændaskólinn á Hvanneyri

Veturinn 1890 setti Amtsráðið skólanum ítarlega reglugerð, er staðfesti hlutverk hans. Hið opinbera nafn skólans var Búnaðarskóli Suðuramtsins. Hvanneyrarskóli varð sá fjórði í röð íslensku búnaðarskólanna. Á vegum Suðuramtsins var búnaðarskólinn síðan rekinn til ársins 1907, að ríkið tók við rekstri hans. Um leið fékk hann nafnið Bændaskólinn á Hvanneyri. Ekki urðu viðbrögðin mikil við fyrstu auglýsingu skólans. Aðeins einn nemandi sótti um skólavist. Það var Hjörtur Hansson frá Hækingsdal í Kjós. Kom hann í skólann um Krossmessu vorið 1898, en skólaárið taldist þá frá miðjum maí tiljafnlengdar næsta ár. Þá var Sveinn Sveinsson, fyrsti skólastjórinn á Hvanneyri, kominn til starfa. Var hann jafnframt eini kennari skólans til að byrja með. Framhaldsnámi í búnaðarfræðum á háskólastigi var komið á fót 1947 með stofnun sérstakrar deildar innan skólans, Framhaldsdeild, sem síðar nefndist Búvísindadeild. Með því skyldi mennta starfsmenn til leiðbeiningastarfa í landbúnaði, svo og annarra sérfræðistarfa í þágu hans. Í fyrstu var námið við framhaldsdeildina tvö ár að lengd. Því lauk með kandídatsprófi. Þáttur tilrauna og rannsókna á Hvanneyri efldist, er kennsla í búvísindum hófst þar. Við stofnun Framhaldsdeildarinnar var komið á fót efnarannsóknastofu á Hvanneyri vegna kennslu í efna- og eðlisfræði. Árið 1955 varð tímamótaár í rannsóknastarfi á Hvanneyri. Þá hófust verkfæratilraunir Verkfæranefndar ríkisins þar, en einnig skipulagar jarðræktartilraunir á vegum Bændaskólans.

Búnaðarskóli Suðuramtsins

Um vorjafndægrin 1889 birtist auglýsing í blaðinu Ísafold frá amtmanninum í Suðuramtinu þess efnis, að stofnaður yrði búnaðarskóli á Hvanneyri í Borgarfirði þá um vorið. Tilkynnt var, að sex nemendur á aldrinum 18-28 ára gætu fengið aðgang að skólanum þann 14. maí, enda uppfylltu þeir sannanlega nánar tilgreindskilyrði um undirbúning svo sem og líkamlegt og andlegt atgervi. Samkvæmt blaðafrásögn sumarið 1889 skyldi það vera aðalmarkmið skólans … „að kenna sem best allan „praktiskan“ verknað. Kenna piltum að læra að vinna og sem besta vinnuaðferð,við túnrækt, garðrækt, vatnsveitingar, kvikfjárrækt, heyvinnu og vöruverkun.“ Í öðru lagi skyldi þar gera „alls konar tilraunir í búnaði, svo sem við túnrækt, við sljettanir, við ræktun á grasfræi, sáðtegundum, garðávöxtum, við kynbætur, brúkun á betri verkfærbætur, brúkun á betri verkfærum og innleiðslu þeirra o.s.frv.“ Mjólkurskóli var starfræktur árin 1900 – 1903 en hann var síður fluttur að Hvítárvöllum.

Pöbbinn

Í gömlu hestaréttinni á Hvanneyri í svokallaðri Dyngju er Pöbbinn. Nyrðri hluti byggingarinnar er að stofni til elsta fjós skólans, byggt laust fyrir aldamótin 1900.

Ásgarður

Þar eru skrifstofur, kennslustofur, mötuneyti og móttaka. Ásgarður var byggður á árunum 1965 – 1979 en var mikið endurnýjaður árið 1996. Húsið er teiknað af Sigurjóni Sveinssyni og Þorvaldi Kristmundssyni. Nafnið Ásgarður er eiginlega sótt til gamals býlis í Hvanneyrarhverfinu er stóð NNV af þessari byggingu.

Rannsóknahús

Þar fer fram verkleg kennsla í efnafræði og fleiri fögum. Bóksala skólans er í forstofu Rannsóknahússins. Stórt gróðurhús er við Rannsóknahúsið. Margvísleg verkleg kennsla fer fram í gróðurhúsinu.

Skemman

Skemman er elsta húsið á Hvanneyri, byggt árið 1896 að tilhlutan biskups, sem frekar vildi láta byggja slíka geymslu en láta nota gömlu kirkjuna til slíks, sem hafði þá verið gert um árabil. Eftir að Skólastjórahúsið brann 1903 var skemman lagfærð og bjó heimilisfólk á Hvanneyri (35-40 manns) í henni í rúmt ár, þar til nýtt íbúðar- og heimavistarhús var reist. Árin 1907 – 1911 var kennd leikfimi uppi á lofti Skemmunnar. Haft er eftir einum nemanda að við leikfimiæfingar á skemmuloftinu hafi verið æði „kalt og karlmannlegt“ stundum. Skemmunni hefur nú verið breytt í safnaðarheimili.

Gamli skólinn

Þar eru kennslustofur og herbergi fyrir gesti á efri hæðunum. Húsið var reist árið 1910 eftir uppdrætti Rögnvaldar Ólafssonar. Fyrir framan kennslustofur á fyrstu hæð hússins er lítill salur sem að sögn Halldórs Vilhjálmssonar þáverandi skólastjóra var ætlaður til „áfloga og skemmtana“.

Hvannir-Skrifstofuhús

Í Hvannahúsinu hafa fyrirtæki/stofnanir tengd landbúnaði skrifstofuaðstöðu.

Húsin á Hvanneyri

Staðsetning gömlu húsanna á Hvanneyri og skipulag þeirra innbyrðis á sér nær enga hliðstæðu hérlendis. Rýmismyndun þeirra er sterk og skipulagið líkist um sumt formi danskra stórbýla. Jafnframt sýna þau tilraunir húsameistaranna til þess að skapa nýjan íslenskan byggingarstíl – að finna nýjum húsagerðarhugmyndum og nýjum byggingarefnum form í íslensku umhverfi. Það er ástæða til þess að vekja athygli staðargesta á þeim þætti í nýsköpun íslenskrar byggingarsögu er varð á framanverðri tuttugustu öld, svo og hlut húsameistaranna sem að henni stóðu. Þeirrar sögu má njóta með stuttri gönguferð um Gamla staðinn á Hvanneyri. Öllu athyglisverðara dæmasafn um þennan söguþátt er vart að finna í sveit á Íslandi. Húsasafnið er um leið rammi um sögu búnaðarmenntunarinnar, eiginlega fyrstu formlegu starfsmenntunarinnar sem landsmenn áttu kost á hérlendis. Þann 11. júlí 2015 voru elstu byggingarnar á Hvanneyrartorfunni friðlýstar, ásamt svæðinu sem þær standa á, minjum, flæðiengjum og fitjum á bökkum Hvítár. Það var Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, forsætisráðherra, sem gerði það með formlegum hætti. Friðlýsingin tekur til gömlu húsana, ásýndar staðarins, mannvistarleifa, garða, minningarmarka í kirkjugarði, jarðræktarminja, flóðgarða og áveitukerfa sem tengdust engjarækt á bökkum Hvítár. Þetta er í fyrsta sinn sem húsminjar og menningarheildir eru friðlýstar.

Leikfimihúsið

Leikfimihúsið var byggt 1911, að mestu leyti úr afgangstimbri frá byggingu Gamla skólans, 1910. Húsið var ekki eingöngu notað til leikfimikennslu; þar voru einnig haldnir fræðslufundir og samkomur enda var salurinn á þeim tíma stærsti samkomusalur í Borgarfirði. Leikfimihúsið er enn notað sem íþróttahús Hvanneyringa. Myndband um endurbyggingu hússins

Skólastjórahúsið

Fyrsta skólastjórahúsið á Hvanneyri var reist 1889, það brann 1903. Árið eftir var reist nýtt hús sem brann 1917. Húsið sem nú stendur er byggt árið 1920 á sama stað og þau fyrri. Það er teiknað af Guðjóni Samúelssyni, og var gert með tvöföldum steyptum veggjum með móeinangrun og kostaði í þá daga um 194 þúsund krónur. Í kjallara hússins þar sem áður var borðsalur skólans er bókasafn Landbúnaðarháskólans. Garðurinn suðvestanvert við húsið (skólagarðurinn) er að stofni til frá fyrsta tug aldarinnar.

Fróðleiksmolar um Hvanneyri

Núverandi kirkja staðarins var reist 1905 en fyrri kirkja fauk árið 1903. Söfnuðurinn neitaði að byggja nýja kirkju.Það kom því í hlut amtsins að byggja kirkjuna sem var síðar afhent Bændaskólanum til eignar og varðveislu. Kirkjan er reist eftir teikningu Rögnvaldar Ólafssonar, altaristaflan er frá 1929 og er hún verk Brynjólfs Þórðarsonar. Altari og prédikunarstóll eru skreytt eftir Grétu Björnsson. Pípuorgel kirkjunnar var vígt í nóvember 1997. Þegar spænska veikin gekk á Hvanneyri árið 1918 bjuggu starfsmenn skólabúsins einangraðir í kirkjunni og sluppu þannig undan veikinni. Árið 1907 var myndarlegt heim að Hvanneyri að líta: Veglegt skólahús á mælikvarða þess tíma, nýbyggð kirkja, stórt og gott 40 kúa fjós, fyrirmyndar fjárhús yfir um 450 fjár, hesthús yfir 40 hross, hlöður og votheysgryfjur sem tóku um 3700 hestburði af heyi, auk smærri bygginga. Suðvestur af Kirkjuhól, sem kirkjugarðurinn er utan í, er annar hóll sem heitir Mylluhóll. Í ferðabók MacKenzie er þess getið að vindmilla hafi verið á Hvanneyri, notuð til að mala korn, og var hún sú eina sinna tegundar á Íslandi. Með tímanum verður staðarnafn sjálfsagður hlutur, sem fáir veita sérstaka athygli. Líklegt þykir, að Hvanneyri dragi nafn sitt af plöntuheitinu hvönn (Angelica). Er hún eftirsótt af búfé, var áður nýtt til manneldis og þótti mögnuð sem lækningajurt: „Urtin er kölluð besta meðal í móti drepsótt og eitri; dreifir stöðnuðu vondu blóði; læknar innvortis meinsemdir, og eyðir öllum vondum vessum“… skrifaði séra Björn í Sauðlauksdal. Í fornbréfum eru dæmi um að nafn jarðarinnar sé ritað Hvann-Eyri.