Heim » Um safnið » Safnkostur og aðbúnaður
Safnkostur
Safnkostur safnsins tók að berast safninu frá árinu 1940 þegar það var Búvélasafn, en Guðmundur Jónsson skólastjóri Bændaskólans hélt hlífiskildi yfir þessum landbúnaðarverkfærum. Þarna voru til dæmis gjafir frá Búnaðarfélagi Íslands, Ólafsdalsskólanum og búi Thors Jenssen á Korpúlfsstöðum. Árið 1987 opnaði Búvélasafnið í smáum stíl á Hvanneyri ásamt því að dálítil geymsluaðstaða var einnig útbúin.

Það var svo 2. október 2014, að safnið flutti „yfir hlaðið“ í Halldórsfjós sem reist var á árunum 1928–1929. Þar opnaði grunnsýning safnsins sem er á tveimur hæðum og er um 50–60% safnkostsins þar að finna. Frá smáum verkfærum yfir í stórar dráttarvélar að ógleymdum þúfnabananum sem stendur í sérstöku húsnæði í nálægð við Halldórsfjós. Annar safnkostur er síðan geymdur á þremur stöðum á Hvanneyri. Smærri gripir eins og áhöld frá Bændasamtökunum, minjar um laxveiði frá Ferjukoti og dýralækningatól eru geymd í vel útbúnu rými í Halldórsfjósi. Þess má geta að fínt varðveislurými er einnig í kjallara safnsins þar sem nokkur tæki eru varðveitt. Einkenni Landbúnaðarsafnsins eru stór landbúnaðartæki og vélar sem geymdar eru í svokölluðu Refahúsi sem er stærra húsnæði er rúmar stórar dráttarvélar og önnur tæki. Þriðja varðveisluhúsnæði safnsins er kallað Spennustöðin sem rúmar alls kyns grófa hluti eins og varahluti í vélar, brynningarskálar, býflugnabú o.fl.

Hvað skráningu gripa til safnsins varðar var lengi vel stuðst við dagbækur safnstjóra en árið 2010 var þó nokkur hluti safnmunanna skráður og merktur sérstaklega. Frá árinu 2017 hefur skráning farið fram í aðfangabækur og ítarskráning í Sarpi, menningarsögulegur gagnagrunnur íslenskra safna. Stefnt er að því að allur safnkosturinn verði kominn inn á Sarp fyrir árslok 2024 en nú þegar eru yfir 500 munir þar skráðir eða rúmlega helmingur safnkostsins.