Einstaka gripir
Hér má finna fróðleik um nokkra gripi í eigu safnsins. Áhugasamir geta einnig flett safnkosti Landbúnaðarsafnsins upp í Sarpi.
Vindrafstöð
23.10.2020.
Fyrir nokkrum dögum rak okkur vestur í Miðdali. Erindið var að vitja vindafstöðvar sem þar hafði verið notuð, og síðan varðveitt um liðlega 60 ára skeið. Pússuð nýlega. Góður gripur, sem við segjum e.t.v betur frá síðar. Vindrafstöðvar bar hingað til lands, líklega flestar frá Ameríku, þar sem þær voru afar algengar á sveitabæjum. Þeirra er hvað fyrst getið hér í sveitum undir lok fjórða áratugs síðustu aldar. Hérlendis nutu þær mikilla vinsælda um tíma, áður en samveiturafmagni var veitt um sveitir. Þær virðast hafa breiðst mjög hratt út um byggðir landsins. Nokkur héraðamunur var á útbreiðslu þeirra. Þær voru t.d. sagðar hafa verið mjög algengar í Miðdölum.
Vindrafstöðvar voru taldar 1610 talsins árið 1945, og hafa þannig verið á fjórða hverju sveitaheimili um þær mundir, sjá Búvélar og ræktun Árna G. Eylands. Vindrafstöðvar voru framleiddar í ýmsum stærðum. Framleiðsla þeirra var að sönnu misjöfn eftir veðrum og vindi, en með rafhlöðum mátti jafna nýtinguna nokkuð. Þær dugðu til ljósa sem þótti gott þegar aðrir kostir voru nær eingöngu olíuljós. Ein fyrsta greinin sem birtist um vindrafstöðvar til sveita kom í Búfræðingnum 7. árg. 1940, bls. 111–113. Þá grein má finna á www.timarit.is
Enn má allvíða sjá minjar um vindrafstöðvar, t.d. steypta stólpa á hólum við bæi og leifar rellu-turnanna á þeim. Vindrafstöðvum bregður líka fyrir á ljósmyndum frá miðri síðustu öld. Eitthvað hefur svo varðveist af búnaði vindrafstöðvanna, án þess að um það sé nákvæmlega vitað, bæði á söfnum og í fórum einstaklinga.
Okkur þætti vænt um að heyra frá fólki sem æskureynslu hefur af vindrafstöðvunum. Ekki mundum við heldur slá höndum á móti ljósmyndum, bæklingum eða öðru efni um vindrafstöðvar, sögum og sögnum um þær o.fl. Við hvetjum lesendur, sem luma á efni, til þess að hafa samband.
Skrúfstykki frá Ólafsdal
Skrúfstykkið hefur verið notað til smíða í Ólafsdal. Torfi Bjarnason skólastjóri Bændaskólans í Ólafsdal hefur trúlega notað gripinn við landsfræga smíði sína á staðnum. En þar voru verkfæri og aðrir gripir smíðaðir til að stuðla að framförum í verkháttum í landbúnaði. Síðar var það notað í Arnarholti og Hlöðutúni í Stafholtstungu, Borgarfirði. Skrúfstykkið er þannig brúkað að tveir kjálkar halda þeim hlutum sem verið er að smíða, lagfæra, rétta, beygja, bora eða skrúfa í o.s.frv. á sínum stað svo notandi þurfi ekki að nota eigið afl. Segja má að gripurinn sé nokkurs konar þvinga þar sem hægt er að skrúfa kjálkana sundur og saman eftir stærð þess sem á milli kemur í smíðum.
Sagan segir að gripurinn sé ættaður frá Ólafsdal þar sem Torfi Bjarnason hefur notað skrúfstykkið til smíða í smiðju sinni. Jafnvel nýtti hann stykkið við gerð þeirra verkfæra frá Ólafsdal sem einnig eru á Landbúnaðarsafninu eins og plóga, hestareku og lappaherfi. Eigendasaga gripsins er sú að þegar Ólafsdalsskólinn hætti árið 1907, færði Torfi dóttir sinni Ragnheiði (1873–1953) og tengdasyni Hirti Snorrasyni (1859–1925) skrúfstykkið. Þau voru skólastjórahjón á Hvanneyri um aldamótin 1900 og hafði Hjörtur meðal annars kennt við Ólafsdalsskóla 1892–1894. Þau fluttu síðar að Arnarholti í Stafholtstungum um 1911, í næsta nágrenni við vinafólk sitt á Hlöðutúni. Nábýlið þar á milli var gott og þegar Ragnheiður fluttist frá staðnum árið 1935 sem ekkja færði hún Hlöðutúnsfólkinu skrúfstykkið að gjöf.
Á Hlöðutúni var verkfærið varðveitt vandlega fyrst af Brynjólfi Guðbrandssyni og Jónínu Guðrúnu Jónsdóttur sem voru samtíða Ragnheiði og Hirti á Hvanneyri. Þannig gekk skrúfstykkið milli kynslóða fjölskyldunnar á Hlöðutúni. Guðmundur G. Brynjólfsson nýtti það eftir foreldra sína og svo síðast sonur hans Brynjólfur sem færði safninu gripinn sumarið 2010.
Við fyrstu sýn virðist um ósköp venjubundið skrúfstykki sé að ræða. Það sem gefur þessum grip þó meiri merkingu fyrir Landbúnaðarsafnið er tenging þess við Ólafsdal og notkun þess við smíðar og viðhald á landbúnaðartólum. Í Ólafsdal var fyrsti búnaðarskóli landsins stofnaður og var Torfi Bjarnason stofnandi og skólastjóri hans þekktur fyrir framfaramál í landbúnaði á seinni helmingi 19. aldar. Fór hann meðal annars til Skotlands árin 1868–1871 þar sem hann kynnti sér steinsmíði, jarðyrkjuverkfæri o.fl. Til Íslands flutti hann með sér enska ljái sem tóku við af þeim íslensku vegna þeirra eiginleika að ekki þurfti að dengja þá líkt og íslensku ljáina. Í búskapartíð Torfa í Ólafsdal hóf hann að slétta túnin þar með plógum og öðrum áhöldum sem ekki höfðu verið í mikilli notkun hérlendis. En þýft undirlendi Íslands var afar óþægt ljáum og hrífum í heyskap fyrri tíðar svo aðferðir Torfa við sléttun túna mörkuðu þáttaskil í framförum hvað ræktun varðar. Enn fremur stundaði hann og nemendur hans smíðar á fjölmörgum verkfærum sem breiddust um landið ásamt aukinni þekkingu og framförum í landbúnaði. Skrúfstykkið stendur þessari merku sögu til vitnisburðar og endurspeglar mikilvægi smárra og hversdagslegra áhalda sem sköpuðu eitthvað meira og stærra í þróun landbúnaðar hér á landi.
Það var svo 2. október 2014, að safnið flutti „yfir hlaðið“ í Halldórsfjós sem reist var á árunum 1928–1929. Þar opnaði grunnsýning safnsins sem er á tveimur hæðum og er um 50–60% safnkostsins þar að finna. Frá smáum verkfærum yfir í stórar dráttarvélar að ógleymdum þúfnabananum sem stendur í sérstöku húsnæði í nálægð við Halldórsfjós. Annar safnkostur er síðan geymdur á þremur stöðum á Hvanneyri.
Smærri gripir eins og áhöld frá Bændasamtökunum, minjar um laxveiði frá Ferjukoti og dýralækningatól eru geymd í vel útbúnu rými í Halldórsfjósi. Þess má geta að fínt varðveislurými er einnig í kjallara safnsins þar sem nokkur tæki eru varðveitt. Einkenni Landbúnaðarsafnsins eru stór landbúnaðartæki og vélar sem geymdar eru í svokölluðu Refahúsi sem er stærra húsnæði er rúmar stórar dráttarvélar og önnur tæki. Þriðja varðveisluhúsnæði safnsins er kallað Spennustöðin sem rúmar alls kyns grófa hluti eins og varahluti í vélar, brynningarskálar, býflugnabú o.fl.
Hvað skráningu gripa til safnsins varðar var lengi vel stuðst við dagbækur safnstjóra en árið 2010 var þó nokkur hluti safnmunanna skráður og merktur sérstaklega.
Frá árinu 2017 hefur skráning farið fram í aðfangabækur og ítarskráning í Sarpi, ,menningarsögulegur gagnagrunnur íslenskra safna. Stefnt er að því að allur safnkosturinn verði kominn inn á Sarp fyrir árslok 2024 en nú þegar eru yfir 500 munir þar skráðir eða rúmlega helmingur safnkostsins.